Liverpool gjörsigraði erkifjendur sína í Manchester United 5:0 á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Egyptinn Mohamed Salah fór gjörsamlega á kostum en hann skoraði þrennu og lagði upp eitt.
Fjörið hófst strax á fimmtu mínútu leiksins en þá sluppu Mo Salah og Naby Keita einir inn fyrir gegn Luke Shaw. Salah var þolinmóður, beið eftir rétta tækifærinu til að setja Keita í gegn sem kláraði færið örugglega.
Tæpum tíu mínútum síðar fékk Trent Alexander-Arnold svo boltann, einn á auðum sjó, hægra megin í teignum. Hann hafði allan tímann í heiminum til að finna Diogo Jota á fjærstönginni sem kláraði auðveldlega.
Þá var komið að Mohamed Salah. Hann skoraði þriðja mark Liverpool á 38. mínútu eftir fyrirgjöf Naby Keita og það fjórða kom svo í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir undirbúning Diogo Jota. Staðan því 0:4 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var svo ekki nema fimm mínútna gamall þegar Mo Salah fullkomnaði þrennu sína. Jordan Henderson vann þá boltann á miðjunni, var fljótur að hugsa og sendi boltann utanfótar í gegn á Salah. Salah kláraði færið eins og honum einum er lagið, með vippu yfir David De Gea.
Tveimur mínútum síðar hélt svo Cristiano Ronaldo að hann væri búinn að minnka muninn fyrir sína menn, en VAR tók markið af vegna rangstöðu. VAR kom svo aftur við sögu nokkrum mínútum síðar þegar varamaðurinn Paul Pogba fékk að líta rauða spjaldið fyrir ljótt brot á Naby Keita, sem var borinn af velli eftir atvikið. Anthony Taylor dómari leiksins gaf Pogba upphaflega gult spjald en breytti dómnum eftir að hafa skoðað tæklinguna aftur.
Með sigrinum fór Liverpool aftur upp í annað sæti deildarinnar og eru nú með 21 stig, stigi minna en topplið Chelsea. Manchester United sitja í sjöunda sæti deildarinnar og er sætið orðið verulega heitt undir Ole Gunnar Solskjær þjálfara liðsins.