Ole Gunnar Solskjær hefur verið rekinn sem stjóri enska knattspyrnuliðsins Manchester United. Liðið tapaði 4:1 gegn Watford í gær sem virðist hafa verið síðasti naglinn í kistuna.
Solskjær tók upphaflega við sem stjóri United til bráðabirgða í desember 2018. Í mars árið 2019 fékk hann svo áframhaldandi samning en eftir að hafa mistekist að vinna titil á þeim þremur árum sem hann stýrði liðinu hefur hann nú verið rekinn.
Gengi liðsins hefur verið slæmt undanfarið en slæm töp gegn Liverpool, Manchester City og nú síðast Watford virðast hafa gert útslagið. Fimm töp í síðustu sjö deildarleikjum hafa valdið því að liðið er nú 12 stigum á eftir toppliði Chelsea.
Í tilkynningu Manchester United segir meðal annars:
„Ole verður alltaf goðsögn hjá Manchester United og það er með mikilli eftirsjá sem við höfum komist að þessari erfiðu niðurstöðu. Þrátt fyrir að síðustu vikur hafi verið erfiðar hefur hann gert mikið og gott starf síðustu þrjú ár við að byggja félagið upp fyrir langtímaárangur.“
Mögulegur brottrekstur Solskjær hefur verið í umræðunni lengi en talað var um að Sir Alex Ferguson vildi halda honum í starfi þrátt fyrir slæmt gengi. Mjög slæmt tap gegn Watford í gær virðist þó hafa verið dropinn sem fyllti mælinn.
Ásamt slæmu gengi hafa dýrir leikmenn ekki náð að sína sitt rétta andlit undir stjórn Norðmannsins. Michael Carrick, einn þjálfaranna úr teymi Solskjær og fyrrum leikmaður liðsins, mun taka við til bráðabirgða á meðan leitin af eftirmanni fer fram.