Velski hægri bakvörðurinn Neco Williams vill komast burt frá enska úrvalsdeildarfélaginu Liverpool. Það er Mirror sem greinir frá þessu.
Williams, sem er tvítugur, er alinn upp hjá félaginu en hann lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið félagsins árið 2019.
Hann hefur ekki átt fast sæti í liði Liverpool enda að berjast við Trent Alexander-Arnold um stöðuna en Alexander-Arnold er af mörgum talinn besti bakvörður heims í dag.
Þrátt fyrir að hafa aðeins leikið 29 leiki fyrir Liverpool í öllum keppnum þá hefur leikmaðurinn verið fastamaður í landsliði Wales og skorað tvö mörk í sautján leikjum.
Liverpool er sagt vilja fá í kringum 10 milljónir punda en Williams gæti yfirgefið herbúðir félagsins þegar janúarglugginn verður opnaður.