Liverpool vann í endurkomu Gerrards

Mohamed Salah.
Mohamed Salah. AFP

Liverpool vann gríðarlega mikilvægan 1:0 sigur á Aston Villa á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Mohamed Salah gerði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu sem hann krækti í sjálfur. Steven Gerrard mætti í fyrsta sinn sem stjóri á Anfield, en hann var auðvitað fyrirliði Liverpool til margra ára.

Leikurinn fór ósköp rólega af stað en Trent Alexander-Arnold fékk fyrst færi leiksins eftir góða sókn heimamanna. Þá átti Andy Robertson fyrirgjöf með fram jörðinni í átt að Mo Salah. Sá egypski lét boltann fara til Alexander-Arnold sem mætti á ferðinni og tók skot í fyrstu snertingu en það fór af varnarmanni og aftur fyrir endamörk. Fyrri hálfleikurinn var algjör eign heimamanna en þeim gekk samt sem áður illa að skapa færi gegn þéttri vörn Aston Villa. Staðan í hálfleik var markalaus, 0:0.

Liverpool var með öll völd á vellinum en áfram gekk þeim illa að skapa færi. Á 65. mínútu fékk Mo Salah boltann í teignum, fór framhjá Tyrone Mings sem tók hann klaufalega niður og vítaspyrna réttilega dæmd. Salah fór sjálfur á punktinn og skoraði af gríðarlegu öryggi, stöngin inn. Heimamenn voru áfram með öll völd og sigldu mikilvægum 1:0 sigri í hús.

Liverpool er í öðru sæti deildarinnar með 37 stig, stigi á eftir toppliði Manchester City. Aston Villa er 12. sæti með 19 stig.



Steven Gerrard á hliðarlínunni í dag.
Steven Gerrard á hliðarlínunni í dag. AFP
Salah skorar eina mark leiksins úr vítaspyrnu.
Salah skorar eina mark leiksins úr vítaspyrnu. AFP
Liverpool 1:0 Aston Villa opna loka
90. mín. Diogo Jota (Liverpool) á skot framhjá Flott skyndisókn Liverpool. Salah finnur Jota en skot hans er yfir markið.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert