Leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eru búnir að fá sig fullsadda á miklu leikjaálagi um hátíðarnar en knattspyrnustjórar og fyrirliðar deildarinnar funduðu með forráðamönnum hennar í dag.
Bæði þjálfarar og leikmenn eru áhyggjufullir vegna leikjaálagsins í kringum hátíðarnar en kórónuveiran setur einnig strik í reikninginn.
Sky Sports greinir frá því að leikmenn séu sérstaklega ósáttir við að spila þrjá leiki á milli 26. desember og 2. janúar á meðan margir leikmenn eru frá vegna meiðsla eða smita. Álagið á þá leikmenn sem eftir standa er því mikið.
Þá voru leikmenn og þjálfarar einnig ósáttir við hve óljósar reglurnar um frestaða leiki vegna kórónuveirusmita eru. Vilja þeir betri útskýringar um hvers vegna sumum leikjum er frestað en öðrum ekki.
Þá vilja æ fleiri leikmenn og þjálfarar leyfa fimm skiptingar í deildinni til að dreifa álaginu á leikmönnum, sérstaklega þegar einhverjir eru fjarverandi vegna meiðsla eða veirunnar.