Fellur þaulsætnasta félagið?

Richarlison, Demarai Gray og félagar í Everton hafa ekki átt …
Richarlison, Demarai Gray og félagar í Everton hafa ekki átt sjö dagana sæla á yfirstandandi leiktíð. AFP/Paul ELLIS

Hið fornfræga félag Everton er í bullandi vandræðum á öfugum enda ensku úrvalsdeildarinnar. Ekkert félag á að baki fleiri tímabil í efstu deild þar um slóðir og fall Everton myndi því sæta stórkostlegum tíðindum. 

Frá því að deildarkeppni var komið á fót á Englandi árið 1888 hefur 123 sinnum verið glímt um meistarabikarinn. Ekkert félag hefur oftar tekið þátt en Everton, alls 119 sinnum. Já, þið eruð að skilja þetta rétt, Everton hefur aðeins verið fjórum sinnum utan efstu deildar frá upphafi vega. Fyrst veturinn 1930-31 og svo aftur frá 1951-54. Eftir að hafa endurheimt sæti sitt aftur vorið 1954 hefur félagið setið sem fastast meðal þeirra bestu og aðeins eitt félag státar nú af lengri samfelldri dvöl í efstu deild, Arsenal, allar götur frá 1919. Þrjú önnur félög hafa verið meira en 100 tímabil í efstu deild, Aston Villa, 108, Liverpool 107 og Arsenal 105.

Til að setja þetta í frekara samhengi þá var Georg VI konungur Englands þegar Everton féll síðast, Clement Attlee var forsætisráðherra Breta og An American in Paris eftir Vincente Minnelli var handhafi Óskarsverðlaunanna. John Lennon var á ellefta ári.
Þessi upptalning sýnir okkur svart á hvítu hversu stór tíðindi það yrðu félli Everton í B-deildina á þessu vori eins og hæglega gæti gerst. Eftir langa og stranga leiktíð er félagið í þriðja neðsta sæti, sumsé fallsæti, þegar sex leikir eru óleiknir, með aðeins 29 stig.

Á leik til góða

Góðu fréttirnar eru þær að Everton á leik til góða á næsta lið fyrir ofan, Burnley, sem er með 31 stig. Hitt liðið sem er í seilingarfjarlægð er Leeds United, með 33 stig eftir 32 leiki. Everton þarf að höfrungahlaupa yfir annað af þessum liðum ætli það að halda sæti sínu í úrvalsdeildinni. Hæpið er að ná Aston Villa, sem er í 15. sætinu með 37 stig.

Verður enski landsliðsmarkvörðurinn Jordan Pickford í B-deildinni næsta vetur?
Verður enski landsliðsmarkvörðurinn Jordan Pickford í B-deildinni næsta vetur? AFP/Lindsey PARNABY


Vondu fréttirnar eru þær að Burnley rumskaði loks af miklum þyrnirósarsvefni eftir að hafa losað sig við stjórann, Shaun Dyche. Gjörningur sem sparkskýrendur kölluðu „fálm í myrkri“ en Burnley hafði þá nýunnið Everton í botnslagnum. En viti menn, allt í einu komst kænan á flot – og rúmlega það. Sjö stig hafa náðst úr þremur leikjum undir bráðbirgðastjórn manns sem heitir því ágæta nafni Michael Jackson – kallar sig raunar Mike. Nokkuð sem fáir sáu fyrir.

Af þremur leikjum sem Burnley á eftir eru tveir gegn Aston Villa og einn gegn botnliði Norwich City. Allt leikir sem gætu unnist. Útileikur gegn Tottenham Hotspur og heimaleikur gegn spútnikliði vorsins, Newcastle United, verða meiri brekka.

Everton á erfiðari dagskrá fyrir höndum. Það verður að segjast eins og er. Liðið fær Chelsea í heimsókn í dag, sunnudag, og á líka eftir að mæta öðru liði úr efsta lagi deildarinnar, Arsenal, á útivelli. Raunhæfara er að ná stigum úr leikjum gegn Leicester City og Brentford, sem sigla lygnan sjó, Watford, sem er svo gott sem fallið, og Crystal Palace, sem er í þægilegri fjarlægð frá fallsvæðinu.

Var í góðum höndum

Síðasta sumar benti ekkert til þess að Everton yrði í vandræðum á þessum vetri; hvað þá að það kæmi til með að vega salt á bjargbrúninni. Ég meina, við erum að tala um leikmenn á borð við Richarlison, Dominic Calvert-Lewin og Jordan Pickford sem mörg önnur lið vildu hafa í sínum röðum. Ég nefni líka vin minn Alex Iwobi í þessu samhengi en það er bara til að gera lesendur vitlausa!

Rafa Benítez var hvorki elskaður né dáður á Goodison Park.
Rafa Benítez var hvorki elskaður né dáður á Goodison Park. AFP/Lindsey PARNABY


Liðið var líka í góðum höndum hjá Carlo Ancelotti og skilaði ásættanlegu verki á liðnu tímabili, tíunda sætinu. Þá tók Real Madrid upp símann og hver segir nei við þá rómuðu stofnun? Ancelotti hvarf á braut og stjórn Everton ákvað að veðja á reynslu og þroska og ráða Rafa Benítez. Þrátt fyrir fyrri störf hans fyrir erkiféndurna í Liverpool. Allir gerðu sér grein fyrir því að það væri ávísun á tóm leiðindi á vellinum en alls ekki vandræði á stigatöflunni. Annað kom á daginn; hvorki gekk né rak hjá Spánverjanum og um miðjan janúar fékk stjórnin nóg. Rafa var rekinn á dyr.

Inn kom maður úr allt annarri átt; Frank Lampard, ungur og til þess að gera lítt reyndur stjóri. Alltént með litla reynslu og þekkingu á kjallararanghölum. Þrátt fyrir allt hefur honum þó gengið skömminni skár en Benítez; er með 38,5% sigurhlutfall á móti 31,8 hjá Spánverjanum. Til samanburðar var Ancelotti með 46,3%. Það staðfestir hrunið. Meira að segja Ronald Koeman var yfir 41%.

Barátta og ástríða

En knattspyrnuleikir vinnast ekki við reikniborðið heldur úti á vellinum sjálfum. Því gerir Lampard sér grein fyrir. Í samtali við Sky Sports á dögunum kvaðst hann hafa vitað að hann væri að taka að sér erfitt verkefni. „Þessi deild mun ögra manni; hér fæst ekkert ókeypis. Maður verður að vinna fyrir sínu. Þegar ég kom hingað gerði ég mér fulla grein fyrir stöðunni sem við erum í. Aðdáendurnir skilja það og leikmennirnir líka. Við erum þar sem við erum og eina leiðin sem ég þekki til að koma okkur úr þessum vandræðum er að berjast og vera ástríðufullir.“

Frank Lampard tók við erfiðu búi en hefur ekki gefið …
Frank Lampard tók við erfiðu búi en hefur ekki gefið upp vonina. AFP/Ben STANSALL


Spurður hvort álagið á toppi deildarinnar sé frábrugðið álaginu á botninum svaraði Lampard: „Í raun ekki. Ég hef reynslu af því að leika fyrir Englands hönd á HM og pressan verður víst ekki meiri. Auðvitað er ég ekki vanur að vera í þeirri stöðu að tapa svona mörgum leikjum, þannig að það er annars konar áskorun, en maður verður bara að laga sig að aðstæðum. Þegar kemur að því að höndla pressu, þá er ég vel verseraður. Þannig hefur líf mitt verið lengi og annað gengur ekki í þessu starfi.“

Sannarlega hugur í okkar manni en dugar það til? Orð eru eitt, frammistaða á vellinum annað.

Nánar er fjallað um Everton í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert