Chelsea á sigurbraut – Svíinn hetja Newcastle

Kai Havertz fagnar sigurmarki sínu í dag.
Kai Havertz fagnar sigurmarki sínu í dag. AFP/Ben Stansall

Tveimur leikjum er nýlokið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Chelsea vann Crystal Palace á heimavelli, 1:0, og Newcastle gerði slíkt hið sama gegn Fulham.

Það var Þjóðverjinn Kai Havertz sem skoraði sigurmark Chelsea í leiknum en það kom um miðjan seinni hálfleik. Crystal Palace setti pressu á Chelsea-liðið á lokakafla leiksins en tókst samt sem áður ekki að jafna metin.

Chelsea fór með sigrinum upp að hlið Liverpool en liðin eru bæði með 28 stig í 9. og 10. sæti. Þau mætast einmitt innbyrðis í næstu umferð. Palace er í 12. sæti með 22 stig.

Í norður-Englandi var Fulham í heimsókn hjá Newcastle. Allt leit út fyrir að leiknum myndi ljúka með markalausu jafntefli en á 89. mínútu skoraði Svíinn Alexander Isak sigurmark Newcastle. Á 69. mínútu skoraði Aleksandar Mitrovic, framherji Fulham, úr vítaspyrnu sem var þó réttilega dæmd ólögleg, þar sem hann rann og sparkaði tvisvar í boltann. Það kom heldur betur á daginn hve dýrkeypt þetta reyndist.

Sigurinn var mikilvægur fyrir Newcastle sem heldur pressu á efstu liðum deildarinnar. Liðið er í þriðja sæti með 38 stig, sex stigum á eftir toppliði Arsenal. Fulham er í sjötta sæti með 31 stig.

Alexander Isak fagnar því að hafa komið Newcastle yfir í …
Alexander Isak fagnar því að hafa komið Newcastle yfir í dag. AFP/Oli Scarff
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert