Fyrsti sigur Liverpool á árinu 2023

Liverpool er komið á beinu brautina í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir afar öruggan sigur gegn nágrönnum sínum í Everton á Anfield í Liverpool í 23. umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 2:0-sigri Liverpool en þetta var fyrsti sigurleikur liðsins í deildinni síðan liðið vann 2:1-sigur gegn Leicester þann 30. desember á Anfield.

Það var Mohamed Salah sem kom Liverpool yfir á 37. mínútu eftir frábæra skyndisókn.

Everton tók þá hornspyrnu frá vinstri og James Tarkowski átti skalla í fjærstöngina. Þaðan barst boltinn til Darwin Núnez sem keyrði af stað upp allan völlinn.

Hann átti svo frábæra sendingu fyrir markið þar sem Mohamed Salah var einn á auðum sjó og hann setti boltann í markið fram hjá Jordan Pickford í marki Everton sem var mættur í skógarferð og staðan orðin 1:0.

Cody Gakpo bætti við öðru marki Liverpool strax í upphafi síðari hálfleiks, á 49. mínútu, og þá var aftur komið mark eftir frábæra skyndisókn.

Andy Robertson keyrði upp völlinn og inn á miðsvæðið. Hann lagði boltann út á Salah sem sendi Trent Alexander-Arnold í gegn á hægri vængnum.

Alexander-Arnold átti frábæra fyrirgjöf, beint fyrir fætur Gakpo sem var einn fyrir opnu marki og hann gat ekki annað en tvöfaldað forystu Liverpool, 2:0.

Liverpool fer með sigrinum upp í 9. sæti deildarinnar í 32 stig og upp fyrir Chelsea en Everton er sem fyrr í 18. og þriðja neðsta sætinu með 18 stig.

Liverpool 2:0 Everton opna loka
90. mín. +4 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert