Liverpool vann ótrúlegan heimasigur á Tottenham, 4:3, í ansi athyglisverðum leik í ensku úrvalsdeildinni í dag sem lauk með ótrúlega dramatískum hætti.
Með sigrinum fer liðið tveimur stigum upp fyrir Tottenham og í fimmta sæti deildarinnar, hefur þannig sætaskipti við Lundúnaliðið.
Það var aðeins eitt lið á vellinum fyrstu hálfa klukkustundina eins og gangur leiksins gefur til kynna. Curtis Jones skoraði fyrsta mark Liverpool á þriðju mínútu og Luis Diaz tvöfaldaði forystu liðsins tveimur mínútum síðar. Á 15. mínútu skoraði Mohamed Salah úr vítaspyrnu eftir að Cristian Romero reif Cody Gakpo niður í teignum. Liverpool átti sex marktilraunir en Tottenham enga og Liverpool var með boltann yfir 70% tímans.
Þá tók Tottenham skyndilega við sér og Liverpool var í töluverðum vandræðum með gestina það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Van Dijk varði á línu frá Son áður en Harry Kane skoraði fyrir Tottenham á 40. mínútu leiksins. Stuttu síðar varði Alisson frábærlega einn gegn Kulusevski og þá átti Son stangarskot en var reyndar flaggaður rangstæður. Hálfleikstölur 3:1 Liverpool í vil.
Það er óhætt að segja að Tottenham hafi verið sterkara liðið í seinni hálfleik. Tvö stangarskot á sömu mínútunni frá Son Heung-min og Cristian Romero áður en Son minnkaði muninn í 3:2 á 77. mínútu leiksins. Liverpool virtist vera að sigla sigrinum heim en sex mínútum var bætt við venjulegan leiktíma. Það var svo Richarlison sem jafnaði metin í 3:3 þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir.
Aðeins mínútu síðar hrökk boltinn inn fyrir vörnina til varamannsins Diogo Jota sem þakkaði ofursvalur pent fyrir sig og tryggði Liverpool sigurinn í ótrúlegum fótboltaleik.
Tottenham kastaði leiknum frá sér á fyrstu fimmtán mínútunum en gerði vel að koma til baka. Ótrúlega svekkjandi fyrir Lundúnaliðið að fá ekkert út úr leiknum. Liverpool er á góðu skriði þessa dagana en varnarleikur liðsins er þó enn brokkgengur.