Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er á því að spila ætti leik liðsins gegn Tottenham Hotspur að nýju eftir að hljóðupptaka af mistökum VAR-dómara í leiknum á laugardag var birt í gær.
Löglegt mark var dæmt af Liverpool eftir að VAR-dómarar misskildu hvað var dæmt á vellinum.
„Ég segi þetta ekki bara sem knattspyrnustjóri Liverpool heldur sem fótboltamanneskja: Eina rökrétta niðurstaðan ætti að vera að leikurinn verði spilaður aftur.
En það gerist líklega ekki. Rökin gegn því verða þau að ef við opnum það hlið muni allir biðja um endurtekningar á leikjum.
En svo langt sem ég man hefur ekkert í líkingu við þetta átt sér stað áður. Þess vegna ætti að spila leikinn aftur,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í dag.
Þrátt fyrir ummæli þýska stjórans hefur Liverpool ekki lagt fram formlega beiðni til ensku úrvalsdeildarinnar um að spila leikinn aftur.
Deildin getur tekið ákvörðun um að láta Tottenham og Liverpool spila leikinn aftur ef nefnd sem hún skipar kemst að þeirri niðurstöðu að dómarar leiksins hafi brotið gegn knattspyrnulögunum þegar þeir dæmdu mark Luis Díaz af.
Klopp bætti því við á fundinum að hann bæri ekki neinn kala til dómaranna sem gerðu mistökin.
„Ég er ekki reiður út í neinn þeirra, síður en svo. Við ættum ekki að fara á eftir þeim. Þeir gerðu mistök og ég er viss um að þeim leið hræðilega þetta kvöld
Þeir gerðu þetta ekki viljandi og við skulum ekki gleyma því.“