Hann er besti varnarmaður heims

Virgil van Dijk og Dominik Szoboszlai fagna í Sheffield á …
Virgil van Dijk og Dominik Szoboszlai fagna í Sheffield á miðvikudag þar sem þeir skoruðu mörk Liverpool. AFP/Darren Staples

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kveðst ekki í vafa um að Virgil van Dijk, fyrirliði liðsins, sé besti varnarmaður heims.

Van Dijk átti í erfiðleikum með að ná aftur fyrri styrk eftir að hann sleit krossband í hné í leik gegn Everton í október árið 2020 en á yfirstandandi tímabili hefur Hollendingurinn sýnt og sannað að hann sé kominn aftur í sitt gamla form.

„Virgil er besti varnarmaður heims, hann var það og verður það áfram. Hefur hann  gengið í gegnum erfitt tímabil? Já, ég myndi gjarnan vilja hitta einhvern sem hefur aldrei upplifað slíkt. Enginn er heldur fullkominn og verður það aldrei. Virgil í sínu besta formi er okkur ómetanlegur," sagði Klopp á fréttamannafundi í dag.

 Van Dijk skoraði fyrra mark Liverpool í sigrinum á Sheffield United á miðvikudagskvöldið, 2:0, en liðið á hádegisleik á morgun þegar það sækir Crystal Palace heim til London klukkan 12.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert