Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu hafa samþykkt kaup Sir Jim Ratcliffe á 25% hlut í enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United.
Það er The Guardian sem greinir frá þessu en Ratcliffe, sem er 71 árs gamall, lagði fram tilboð í enska úrvalsdeildarfélagið hinn 15. október á síðasta ári.
Áður en kaupin ganga formlega í gegn þarf enska knattspyrnusambandið einnig að staðfesta þau en það er talið algjört formsatriði að því er fram kemur í frétt Guardian um málið.
Breski auðkýfingurinn var metinn næstríkasti maður Bretlandseyja á árinu 2023 en hann er búsettur í Hampshire á suðausturhorni Englands ásamt því að vera með búsetu í Mónakó af skattalagaástæðum.
Þá er hann vel þekktur á Íslandi sem stærsti landeigandi hérlendis og er talinn eiga um það bil eitt prósent af landinu, aðallega með jarðakaupum á Norðausturlandi. Þar á hann meðal annars jarðir við einar átta laxveiðiár, m.a. við Selá í Vopnafirði.