Guardiola undirbýr sig fyrir dramatík

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP/Ben Stansall

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, býst ekki við auðveldum leik á lokadegi ensku úrvalsdeildarinnar sem er í dag en City mætir West Ham klukkan 15.00.

 City er með 88 stig á toppi deildarinnar en er með Arsenal á hælunum með 86 stig. Jafntefli dugar City ekki ef Arsenal vinnur sinn leik vegna markatölu. Arsenal mætir Everton á eftir en allir leikir dagsins fara fram klukkan 15.00.

Pep Guardiola hefur áður lent í dramatík á lokadeginum en árið 2022 lenti City 2:0 undir gegn Aston Villa. Ef leikurinn hefði endað þannig hefði Liverpool tekið fyrsta sætið af þeim en City kom til baka og vann leikinn 3:2 og þar með deildina.

„Ég er með þá tilfinningu að þetta verði Aston Villa aftur. Við værum til í að vera 3:0 yfir eftir tíu mínútur en það er ekki að fara að gerast,“ sagði Guardiola.

Leikurinn gegn City verður síðasti leikur David Moyes sem knattspyrnustjóri West Ham. Þeim hefur ekki gengið vel upp á síðkastið og aðeins unnið einn af síðustu sjö leikjum liðsins og eru í níunda sæti með enga möguleika á Evrópukeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert