Rafíþróttasamtök Íslands hafa svo sannarlega verið að fá mikla athygli og ollið grósku í rafíþróttum síðastliðin ár hvað varðar uppbyggingu rafíþrótta og stuðlun að heilbrigðu líferni.
Heimasíða samtakanna, rafithrottir.is, virðist hafa orðið fyrir barðinu á tölvuþrjótum í morgunsárið. Ef opnuð er heimasíðan má þar sjá að síðan er mjög trufluð og það eina sem sést skýrt eru stafirnir LD auk dagsetningar dagsins í dag, 14. janúar 2022.
Er þetta sambærilegt truflun og hefur verið að koma fram í beinum útsendingum á bæði GameTíví auk Vodafone-deildarinnar og virðist að því vera að þær truflanirnar séu vegna tölvuþrjóta.
Enn er óvíst hvað er að valda þessum truflunum og en mbl.is hafði samband við Aron Ólafsson, framkvæmdastjóra Rafíþróttasamtaka Íslands, og Ólaf Hrafn Steinarsson, formann Rafíþróttasamtaka Íslands vegna þessa.
„Þetta er náttúrulega grafalvarlegt að það séu að koma upp truflanir sem eru að hafa áhrif á útsendingar, en við höldum áfram að komast til botns í þessu og vonum að leikir kvöldsins fari vel fram,“ segir Ólafur Hrafn Steinarsson í samtali við mbl.is.
„Það eru ýmsar truflanir í gangi hjá okkur sem við erum að reyna að vinna úr. En það er eins og við ráðum ekkert við þetta. Það er eitthvað rosalegt að taka yfir allt hjá okkur,“ segir Aron Ólafsson í samtali við mbl.is.
„Ég vona innilega að það trufli ekki útsendinguna í kvöld því hún byrjar klukkutíma fyrr með sýningarleik þar sem áhorfendur kusu í lið meðal leikmanna Úrvalsdeildar.“
Hægt verður að fylgjast með útsendingunni í kvöld á Stöð2 Esports eða á Twitch-rás Rafíþróttasamtaka Íslands klukkan 19:30.