Renaultliðið hefur tekið hina frammúrstefnulegu fjöðrun úr keppnisbílum sínum þrátt fyrir að dómarar kappakstursins í Hockenheim hafa sagt hana fyllilega löglega. Verður hún ekki sett í bílana á ný fyrr en að lokinni áfrýjun Alþjóðaakstursíþróttasambandsins (FIA).
Eftir að dómarar FIA í Hockenheim lýstu fjöðrunina fyllilega löglega og að ekkert í tæknireglum FIA bannaði notkun hennar ákvað tæknistjóri FIA, Charlie Whiting, að áfrýja niðurstöðu dómaranna til árýjunardómstóls FIA.
Í tilkynningu til keppnisliða um áfrýjunina hótaði FIA því að ynni það málið yrðu bílar búnir fjöðruninni dæmdir úr leik í Hockenheim. Um sjö lið munu hafa farið að fordæmi Renault og þróað samskonar fjöðrun en hún hefur verið í bílum Renault frá í september í fyrra.
Þar sem áfrýjunarmálið verður ekki tekið fyrir fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku hangir málið enn í lausu lofti. Því ákvað Renault að taka enga áhættu varðandi niðurstöðuna og ákvað að nota ekki fjöðrunina í bílunum á æfingum í dag eða frekar það sem eftir er helgarinnar.
Fjöðrunin umdeilda var ekki í bílum Renault við bílprófanir í Jerez á Spáni í síðustu viku og ökuþórarnir sögðu engan mun að keyra bílunum. Það þykir ótrúlegt í ljósi þeirrar áherslu Renault á að fá dóm á búnaðinn er liðið sendi varabílinn með búnaðinum í hefðbundna skoðun hjá eftirlitsmönnum kappakstursins í gær. Í framhaldi af henni var búnaðurinn úrskurðaður lögmætur.
Whiting hafði í fyrstu leyft fjöðrunina en sneri svo við blaðinu eftir franska kappaksturinn á dögunum og sagði hana ólöglega. Á það féllst ekki Renault og sagði niðurstöður hans rangar og ekki dregnar á réttum forsendum.