Kimi Räikkönen hjá McLaren var í þessu að vinna ráspól þýska kappakstursins í Hockenheim. Er þetta fyrsti ráspóll hans í tæpt ár því síðast vann hann tímatökur tyrkneska kappakstursins í fyrra. Michael Schumacher á Ferrari varð annar og félagi hans Felipe Massa þriðji. Heimsmeistarinn Fernando Alonso á Renault varð aðeins sjöundi í tímatökunum sem er jafnt hans lakasta í tímatökum í ár. Betri afmælisgjöf hefur hann líklega geta hugsað sér á 25. afmælisdeginum.
Með þessu kætti Räikkönen liðsmenn sína og mótorsmið liðsins, Mercedes-Benz, en þýski kappaksturinn er heimamót Mercedez og gat tímasetning fyrsta ráspólsins á árinu því ekki verið betri hjá Räikkönen.
Fyrsta lota tímatökunnar var stöðvuð í tæpar 10 mínútur eftir að Scott Speed missti vald á Toro Rosso-bílnum í lokabeygjunni og hafnaði á brautarvegg með þeim afleiðingum að brak úr bílnum dreifðist inn á brautina. Massa átti besta tímann, var hálfri sekúndu á Schumacher, Räikkönen og Jarno Trulli hjá Toyota sem fengið hafði nýjan mótor eftir æfinguna í morgun og færist því aftast á rásmarkið.
Vitantio Liuzzi, Christjan Albers, Takuma Sato, Tiago Monteiro, Sakon Yamamoto og Speed féllu úr leik í fyrstu lotunni. Með öðrum orðum báðir bílar Toro Rosso, Midland og Super Aguri. Og Renaultbílana virtist skorta hraða því Alonso varð fimmti og Giancarlo Fisichella þrettándi.
Ferrari drottnaði í annarri lotu og Schumacher ók þá hraðast, var 0,3 sekúndu fljótari með hringinn en Massa. Alonso átti enn í vanda og fór öðru sinni út í brautina til að tryggja sig inn í lokalotuna. Í annarri lotu féllu úr Mark Webber, Christian Klien, Trulli, Jacques Villeneuve, Nico Rosberg og Nick Heidfeld, þ.e. báðir bílar Williams og BMW.
Í lokalotunni ók Ralf Schumacher á Toyota inn í hlið Pedro de la Rosa á McLaren í hárnálarbeygjunni svo að báðir bílar skemmdust og urðu að fara inn að bílskúrum til viðgerða. Á leið út úr bílskúrnum varð Button að grípa til neyðarráðstafana til að fá Ralf ekki inn í sig er hann ók út úr Toyotaskúrnum að aflokinni viðgerð. Skrifast það atvik reyndar á aðstoðarmenn Ralfs en ekki hann sjálfan því þeir veifuðu honum of snemma af stað.
Räikkönen setti besta tímann á öðrum fljúgandi hring sínum. Er hann ætlaði að bæta um betur á þeim næsta lenti hann utan brautar. Gilti þó einu því hann hélt efsta sætinu og vann þvíæ ráspól fyrsta sinni á árinu.
Honda virðist í framför þar sem Jenson Button vann fjórða sætið. Með því bætir hann að einhverju fyrir hörmungarnar í franska kappakstrinum fyrir hálfum mánuði. Hefur hann keppni á undan Giancarlo Fisichella á Renault, liðsfélaga sínum Barrichello og Alonso. Ralf Schumacher vann áttunda sætið, de la Rosa það níunda og David Coulthard á Red Bull það tíunda.
Niðurstaða tímatökunnar í Hockenheim varð annars sem hér segir: