Alonso refsað með tímavíti

Alonso á æfingunni í Búdapest.
Alonso á æfingunni í Búdapest. ap

Möguleikar heimsmeistarans Fernando Alonso á að keppa til sigurs í ungverska kappakstrinum um helgina hafa minnkað mjög þar sem dómarar kappaksturins hafa ákveðið að beita hann tímavíti í tímatökum fyrir framferði hans á æfingu í dag.

Dómarar kappaksturins kölluðu Alonso og Robert Doornbos hjá Red Bull á sinn fund eftir að sá fyrrnefndi veifaði harkalega til þess síðarnefnda fyrir að halda aftur af sér á seinni æfingunni.

Auk þess að mótmæla hindruninni með því að veifa höndum er hann komst loks upp að hlið Doornbos virtist Renaultþórinn hægja af ásettu ráði á sér eftir að fram úr var kominn.

Verður tveimur sekúndum bætt við hvern tíma Alonso í tímatökunum á morgun. Refsingin hefur það í för með sér að erfitt verður fyrir hann að komast áfram úr tveimur fyrstu lotunum. Nær útilokað er að komast fram úr á þröngri Hungaroring-brautinni.

Refsingin var tvíþætt. Sekúndu var bætt við tímann fyrir „óþarfa, óásættanlegan og hættulegan“ akstur. Hinni sekúndunni var bætt við fyrir framúrakstur undir gulum flöggum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert