Möguleikar heimsmeistarans Fernando Alonso á að keppa til sigurs í ungverska kappakstrinum um helgina hafa minnkað mjög þar sem dómarar kappaksturins hafa ákveðið að beita hann tímavíti í tímatökum fyrir framferði hans á æfingu í dag.
Dómarar kappaksturins kölluðu Alonso og Robert Doornbos hjá Red Bull á sinn fund eftir að sá fyrrnefndi veifaði harkalega til þess síðarnefnda fyrir að halda aftur af sér á seinni æfingunni.
Auk þess að mótmæla hindruninni með því að veifa höndum er hann komst loks upp að hlið Doornbos virtist Renaultþórinn hægja af ásettu ráði á sér eftir að fram úr var kominn.
Verður tveimur sekúndum bætt við hvern tíma Alonso í tímatökunum á morgun. Refsingin hefur það í för með sér að erfitt verður fyrir hann að komast áfram úr tveimur fyrstu lotunum. Nær útilokað er að komast fram úr á þröngri Hungaroring-brautinni.
Refsingin var tvíþætt. Sekúndu var bætt við tímann fyrir „óþarfa, óásættanlegan og hættulegan“ akstur. Hinni sekúndunni var bætt við fyrir framúrakstur undir gulum flöggum.