Kubica hugsanlega dæmdur úr leik

Kubica í kappakstrinum í Búdapest.
Kubica í kappakstrinum í Búdapest. ap

Robert Kubica hjá BMW kann að verða sviptur fyrstu keppnisstigum sínum fyrir sjöunda sætið í ungverska kappakstrinum í dag þar sem bíll hann reyndist of léttur að móti loknu.

Við skoðun á bíl Kubica reyndist tvö kíló vanta á lágmarksþyngd hans en eftir er að skera úr um hvort það leiði til þess að hann verði dæmdur úr leik í sínu fyrsta móti í formúlu-1.

Fari svo þýðir það að Felipe Massa færist upp í sjöunda sætið úr því áttunda og sem meira er; Michael Schumacher dæmist í áttunda sæti og fær því stig þótt hann hafi ekki lokið kappakstrinum, ekið inn í skúr vegna bilunar þegar þrír hringir voru eftir. Schumacher var skráður níundi á mark í keppninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert