Heimsmeistarinn Fernando Alonso hjá Renault var í þessu að vinna öruggan sigur í keppninni um ráspól kínverska kappakstursins. Liðsfélagi hans Giancarlo Fisichella hreppti annað sætið í lokin en Michael Schumacher á Ferrari varð sjötti eftir að hafa naumlega sloppið inn í lokalotu tímatökunnar.
Rubens Barrichello á Honda varð í þriðja sæti og jafnaði þar með sinn besta árangur í tímatökum í ár. Hóf hann einnig keppni af þriðja rásstað í ungverska kappakstrinum. Á morgun hefur Barrichello keppni í 230. sinn.
Liðsfélagi Barrichello, Jenson Button, varð fjórði í tímatökunum en svo óvenjulega vildi til að þeir hlutu nákvæmlega sama tíma upp á þúsundasta úr sekúndu. Barrichello var þó fyrri til og hlaut því fremra sætið.
Bílar á Michelin-dekkjum reyndust ráða mun betur við rennblautar aðstæður í Sjanghæ en bílar á Bridgestone-dekkjum. Kimi Räikkönen á McLaren varð fimmti og liðsfélagi hans Pedro de la Rosa varð að gera sér sjöunda sætið, á eftir Schumacher, að góðu eftir að hafa snarsnúið bílnum í brautinni á sínum hraðasta hring.
Schumacher var eini ökuþórinn á Bridgestone-dekkjum sem komst í hóp 10 fremstu. Var það ekki fyrr en á lokamínútu annarrar lotu tímatökunnar að hann komst í lokalotuna, skaust þá úr 15. sæti í það níunda.
Bætti Schumacher sig síðan örlítið í lokakeppninni en keppinautur hans um heimsmeistaratitilinn, Alonso, var næstum því hálfri annarri sekúndu fljótari með hringinn er hann tryggði sér sinn 15. ráspól á ferlinum.
Stöðugt rigndi er tímatakan fór fram, lofthiti 21°C en brautarhiti 22 gráður. Fyrir vikið áttu ökuþórar erfitt með að hemja bílana á brautinni og nánast allir lentu einhverju sinni út úr henni. Alonso var í sérflokki og átti besta brautartímann í öllum lotunum þremur.
Aðstæður versnuðu eftir því sem á leið tímatökuna en er lokalotan hófst hafði lofthiti lækkað í 19°C og raki mældist 90%. Hið kalda og vota veður í Sjanghæ hefur sett allar áætlanir liðanna fyrir kínverska kappaksturinn í uppnám, en þau gerðu ráð fyrir mun heitara verðri og þurrki er keppnin færi fram. Nú er spáð rigningu er kappaksturinn fer fram á morgun.
Í fyrstu lotu féllu báðir Toyota-þórarnir úr leik, Jarno Trulli og Ralf Schumacher, báðir ökuþórar Spyker-MF1, Tiago Monteiro og Christijan Albers, og báðir ökuþórar Super Aguri, Takuma Sato og Sakon Yamamoto. Undir öllum þessum bílum eru Bridgestone-dekk.
Þrír Bridgestone-búnir bílar féllu úr leik í annarri lotu, Williamsþórarnir Mark Webber og Nico Rosberg urðu í 15. og 16. sæti og Felipe Massa á Ferrari í 13. Einnig féllu þá brott Vitantonio Liuzzi á Toro Rosso, David Coulthard á Red Bull og Scott Speed á Toro Rosso.
Athygli vekur að hollenski ökuþórinn Robert Doornbos á Red Bull komst í lokaslag um 10 fremstu sætin en hann er að þreyta frumraun sína í keppni með liðinu. Var hann þriðji ökuþór liðsins þar til í síðasta móti er hann tók við af Christian Klien.
Niðurstaða tímatökunnar varð annars sem hér segir:
Felipe Massa á Ferrari færist aftast á rásmarkið og hefur keppni í 22. sæti þar sem skipt var um mótor í bílnum hans eftir æfingar í gær. Bílar í 14. til 22. sæti á tímatökulistanum færast því fram um eitt sæti hver.