Michael Schumacher segist munu gera allt sem í hans valdi stendur til að vinna brasilíska kappaksturinn á morgun þótt bilun í bílnum hafi leitt til þess að hann hefur keppni í tíunda sæti.
Bensínpressa féll í bílnum á fyrsta hring lokalotu tímatökunnar og ók Schumacher beint inn í bílskúr og kom aldrei út aftur. Hann þarf að sigra á morgun til að eiga möguleika í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra.
Það jafngildir þó líklega Everest-göngu því keppinautur hans um titilinn, Fernando Alonso, og liðsfélagi Alonso, Giancarlo Fisichella, hefja keppni á undan honum.
„Auðvitað verður það erfitt og mun erfiðara vegna skipan rásraðarinnar. Við verðum að bíða og sjá hvernig kappaksturinn þróast og vinna sem best úr stöðunni.
Ég veit ekki hvað við getum, ég veit ekki hvernig kappaksturinn mun æxlast. Það er erfitt að spá nokkru en ég mun reyna mitt besta. Það er miklu erfiðara að hefja keppni úr tíunda sæti en auðvitað mun ég reyna,“ sagði Schumacher.
Hann sagðist svekktur yfir gangi mála þar sem möguleikar Ferrari í keppni bílsmiða hefðu versnað og ítrekaði að hann gældi ekkert við titil ökuþóra.
Ég hef ekkert verið að pæla í titli ökuþóra, heldur var ég með keppni bílsmiða í huga og vonaðist til að geta skorað sem flest stig. Þess vegna er ég svekktur yfir því hvernig fór.
Ljóst má vera að ég er ekki ánægður með stöðuna. Við áttum við tæknibilun að stríða [í síðasta móti] í Japan og aftur hér nú. Það er leitt að það skuli gerast tvö mót í röð,“ sagði Schumacher.