Skjótið á úrslitin í formúlunni

Vertíðin hófst með æfingum í Melbourne í morgun. Hér fer …
Vertíðin hófst með æfingum í Melbourne í morgun. Hér fer Jarno Trulli á Toyota fremstur, á undan Christijan Albers á Spyker og Nick Hiedfeld á BMW. ap

Nýtt keppnistímabil í Formúlunni hefst næstkomandi sunnudag. Eins og áður verðum við með leik á formúlusíðunni á mbl.is sem kallast „Skjóttu á úrslitin“ og þar geta menn giskað á röð manna í hverjum kappakstri fyrir sig, en stigagjöf í leiknum er sú sama og notuð er í keppninni.

Hægt er að giska á hvernig fer eins oft og sýnist þar til klukkustund fyrir keppni, eða til klukkan tvö aðfaranótt sunnudags vegna kappakstursins í Melbourne. Hvenær sem er má skrá sig inn til að kanna stöðuna.

Stig eru gefin fyrir að vera með réttan mann í réttu sæti; jafn mörg stig og veitt eru í formúlunni sjálfri. Engin stig eru gefin fyrir að hafa verðlaunahafa í röngu sæti.

Sá sem flest stig fær á tímabilinu hlýtur að launum glæsilega Hewlwett Packard-fartölvu frá Opnum kerfum svo nú ríður á að missa ekki úr mót. Hægt verður að skjóta á úrslitin tveim dögum fyrir hverja keppni og fram að tímatöku. Ef margir eru jafnir í efsta sæti að loknu tímabilinu verður dregið á milli þeirra.

Útsendingar um miðja nótt

Beinar útsendingar Sjónvarpsins frá formúlumótinu í Melbourne um helgina verða tvær. Vegna tímamismunar hefst útsending frá tímatökunum klukkan 2:50 aðfaranótt laugardags og útsending frá kappakstrinum hefst klukkan 2:30 aðfaranótt sunnudagsins.

Með kveðju, Formúluvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka