Heimsmeistarinn Fernando Alonso hjá McLaren sagðist sáttur við úrslit ástralska kappakstursins þótt hann gæti ekki hafið titilvörnina með sigri. Varð hann að sætta sig við annað sætið þar sem hann hafði ekki við Kimi Räikkönen á Ferrari á götum Melbourne.
Alonso kom á mark sjö sekúndum á eftir Räikkönen en þótt hann hafi verið ánægður með úrslitin sagði hann McLarenliðið eiga mikið verk fyrir höndum til að draga Ferrari uppi.
„Ég held þetta hafi verið góð helgi hjá okkur og með úrslitunum getum við verið ánægð,“ sagði Alonso en hraðasti hringur hans var rúmri sekúndu lakari en besti hringur Räikkönen.
„Ferraribílarnir voru aðeins of hraðskreiðir fyrir okkur nú. Við þurfum að leggja meiri vinnu á okkur ef við ætlum okkur mótssigra. Við sýndum og sönnuðum núna að sá er tilgangur okkar, ekki ætlum við að slappa af. Mikið býr í bílnum og ég hlakka til næsta móts,“ sagði Alonso.
Í seinna þjónustustoppinu vann hann sig fram úr liðsfélaga sínum, Lewis Hamilton, sem var ekki aðeins nýliði dagsins, heldur og maður dagsins. Tapaði Alonso fyrir Hamilton í ræsingunni og féll úr öðru sæti í það fjórða.
„Ræsingin var mjög undarleg, alls ekki góð. Ég sá Nick [Heidfeld] koma utanvert og einbeitti mér því að honum fremur en beygjunni sjálfri. Ég áttaði mig svo á því að ég var orðinn fjórði og úr þeirri stöðu gat ég ekki sótt af hörku.
Ég var heppinn að komas fram úr [Hamilton] í seinna stoppinu. Þetta var góð barátta eins og alltaf í Ástralíu,“ sagði Alonso.