Räikkönen fagnar „fullkominni“ byrjun

Liðsstjórinn Jean Todt ánægður með sinn mann er Räikkönen ekur …
Liðsstjórinn Jean Todt ánægður með sinn mann er Räikkönen ekur bílnum inn að bílskúrum eftir sigurinn í Melbourne. ap

Kimi Räikkönen var að vonum ánægður með sigurinn í Melbourne og sagði það fullkomna byrjun á keppnisferli sínum með Ferrari. Hann er fyrsti maðurinn frá því Nigel Mansell vann það afrek í Brasilíu 1989 að vinna sinn fyrsta kappakstur með Ferrari.

Räikkönen drottnaði í kappakstrinum, hafði forystu frá ræsingu og var aldrei ógnað í fyrsta sæti. Hann náði fljótt 15 sekúndna forystu og gat því hagrætt ferðinni eftir það. Krusaði hann lokakaflann og varð á endanum sjö sekúndum á undan heimsmeistaranum Fernando Alonso.

Sigurinn er sá tíundi á ferli Räikkönen og sá fyrsti frá í japanska kappakstrinum í Suzuka 9. október 2005.

„Þetta var mjög flott, kappaksturinn var ekki auðveldur, rétt fyrir ræsingu bilaði talstöðin og var ég því ekki í talstöðvarsambandi eftir það. Það flækti málin en við vorum með fyrirfram ákveðna áætlun sem við framkvæmdum. Þetta var samt góð keppni og ég þurfti aldrei að knýja bílinn heldur fylgjast bara með hinum.

Það er gott að vinna fyrsta kappakstur, upplögð byrjun á vertíðinni. Bíllinn er mjög öflugur, andinn góður og mannskapurinn gerir mér lífið létt. Vonandi verður þessi gangur á okkur áfram,“ sagði Räikkönen á sigurstundu.

Hann gerði aðeins ein mistök í akstrinum undir lokin er hann klúðraði beygju og tapaði um tveimur sekúndum. „Ég læsti afturhjólunum og var með hugan annars staðar. Algjör mistök af minni hálfu, ég var á eftir öðrum bíl. Þetta er eitt af því sem kemur fyrir þegar maður er ekki að sækja stíft,“ bætti Räikkönen við.

Besti hringur Räikkönens var rúmlega sekúndu betri en besti hringur Alonso. Það finnst finnska ökuþórnum litlu skipta á þessu stigi. „Það er of snemmt að segja um stöðuna, við verðum að bíða nokkur mót í viðbót til að sjá hvar við stöndum gagnvart hinum liðunum. Við fáum nýja íhluti fyrir næstu mót og munum gera okkar besta. Ég held staða okkar sé góð, við munum leggja okkur hart fram um að bæta bílinn og reyna vinna eins mörg mót og frekast er unnt,“ sagði Räikkönen.

Köflótta flaggið fellur er Räikkönen ekur yfir marklínuna sem sigurvegari …
Köflótta flaggið fellur er Räikkönen ekur yfir marklínuna sem sigurvegari í Melbourne. ap
Räikkönen fagnar sigri í Melbourne.
Räikkönen fagnar sigri í Melbourne. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert