Kimi Räikkönen hefur upplýst hvernig það er að aka heilan kappakstur með yfirburðum alla leið og án talstöðvarfjarskipta. Var það hálfgerð eimsend að geta við engan talað og fá í staðinn upplýsingar um gang mála á tölubretti sem veifað var af stjórnborði Ferrari er hann ók hjá.
Räikkönen segir að það að geta ekki við neinn rætt hafi reynt á einbeitingu sína og hún dofnað á köflum á hringjunum 58.
„Í eitt skiptið, þegar um 10 hringir voru eftir, dottaði ég næstum því. Hugurinn reikaði, einbeitingin dvínaði og ég læsti hjólunum og fór of vítt í beygju þrjú. Ég þóttist viss um hvað þeir segðu þótt ekkert talstöðvarsamband væri: „Kimi, vaknaðu“, “ segir hann á heimasíðu Ferrari.
Räikkönen vann ekki bara kappaksturinn, heldur tímatökurnar líka og setti auk þess hraðasta hring í keppninni.