Keppnistímabilið getur varla hafa byrjað betur

Liðsmenn McLaren samfagna Alonso með sigurinn í Sepang.
Liðsmenn McLaren samfagna Alonso með sigurinn í Sepang. ap

Það er sennilega landlæg hefð að ofurspennt börn í páskaeggjaleit ræsi foreldra sína eldsnemma á páskadagsmorgun. Í ár snérist hefðin við á einhverjum heimilum þar sem komið var að öðru móti keppnistímabilsins í Formúlu 1. Freyja Gunnarsdóttir vaknaði á undan öðrum á sínu heimili í morgun.

„Þau voru hálfstúrin blessuð börnin sem vöknuðu við hróp og köll um sjöleytið í morgun,“ segir Freyja sem lifði sig inn í útsendinguna frá fjörinu í Sepang. Hugleiðingar hennar um mótið fara hér á eftir:

„Ég sá að pistlar eftir mót yrðu skrifaðir af hinum ýmsu formúlusérfræðingum en veigra mér við að standa undir þeim titli því það verður að viðurkennast að það að vera ekki farin að þekkja bílana, hjálmana eða læra almennilega hver er komin hvert í öðru móti ársins er ekki mjög sérfræðingslegt – eiginlega langt í frá.

Mér til afsökunar þarf ég að játa mikla synd af hálfu formúluáhugamanns en ég datt í hálfgert formúlufrí um mitt síðasta ár og er rétt að rífa mig uppúr því núna. Þetta gerðist þrátt fyrir að "minn" maður væri á góðri siglingu að heimsmeistaratitli í fyrra og landaði honum fyrir rest.

Sérfræðingar í hinu og þessu

En hvað er það sem dregur fólk aftur og aftur að skjánum, jafnvel á svona ókristilegum tíma á páskadagsmorgun og aftur og aftur á keppnir víða um heim. Auðvitað hlýtur það að vera nokkuð einstaklingsbundið hvað heillar fólk, sumir eru á kafi í tæknihlið íþróttarinnar og eru orðnir sérfræðingar í dekkjum, vélum, gripi, loftflæði, vængstillingum svo eitthvað megi telja. Aðrir heillast af hraðanum, áhættunni, keppninni sjálfri og þeir sem fara á keppnir ekki síst hljóðinu beint í æð og lyktinni.

En snúum okkur að móti dagsins sem fram fór á Sepangbrautinni í Malasíu. Brautin gefur færi á skemmtilegum kappakstri og reynir vel á bíla og menn. Það er þó ekki síst hinn gífurlegi hiti og raki sem spilar stórt hlutverk í því hvernig og hvort hvoru tveggja endist út kappaksturinn.

Vegna áðurnefnds formúluslens missti ég af tímatökunum en rásröðin lofaði sannarlega góðu. Ferrari og McLaren í slagsmálastöðu þó Massa væri þó í ólíkt betri stöðu til að gera sig gildandi en í fyrsta móti ársins enda á ráspól núna. Alonso og Räikkönen þar á eftir tilbúnir í slag. Nýliðinn knái, Hamilton, ekki langt undan og svo spútniklið tímabilsins, það sem af er, BMW Sauber á 5. og 7. rásstað. Þar á milli skaust nýliði síðasta árs, Nico Rosberg á Williamsbílnum.

Svona eiga ræsingar að vera!

Ræsingin er alltaf hrein adrenalíninnspýting, hver bíður ekki með öndina í hálsinum þegar ljósin koma upp? Það eru alveg þekkt dæmi til um það að fólk gleymi jafnvel að anda dágóða stund og yfir andlitið færist örlítill blámi. Eins gott að ökumennirnir eru í betra jafnvægi en margur formúluáhugamaðurinn því það er aldrei nauðsynlegra en í ræsingunni að halda einbeitingunni 100%.

Og þessi sveik ekki, Alonso sýndi gamla góða takta og skaust framúr Massa og félagi hans, Hamilton, átti ekki síðri ræsingu þar sem hann komst framúr Ferrarifélögunum báðum. Sá átti eftir að etja kappi við rauðklæddu félagana, í byrjun var það Massa sem nánast andaði ofan í hálsmálið á Hamilton meðan Alonso fjarlægðist óðum og náði upp góðri forystu. Massa hljóp þó aðeins kapp í kinn við að komast framúr, bremsaði of seint í einni beygjunni og fór í smá lautarferð. Við það missti hann bæði félaga sinn, Kimi og Heidfeld á BMW Sauber framúr sér en Kimi komst við þetta á hæla Hamilton. Svona eiga ræsingar að vera! Engin teljandi óhöpp en hörkubarátta.

Það var gaman að sjá BMW Sauberbílinn halda að fullu í við þá „stóru“ þó Kubica ætti greinilega í einhverjum vandræðum með sinn bíl og verður hann að teljast lestarstjóri keppninnar þar sem hann hélt góðum hópi fyrir aftan sig um tíma.

Wurz meðal hástökkvara mótsins

Williamsliðið átti líka fína spretti og má telja Wurz meðal hástökkvara mótsins þar sem hann kom sér í níunda sæti úr því nítjánda en Rosberg varð að hætta keppni þegar leið á seinnihluta keppninnar, þá í sjöunda sæti, er bíllinn fór að senda frá sér reykmerki.

Það var tiltölulega rólegt yfir keppninni um miðbikið svona burtséð frá annatímum þjónustuliðsins en spennan jókst óðum undir lokin en þá fór Kimi að krafsa í hælana á Hamilton enn á ný og Massa reyndi við Heidfeld.

Hamilton stóðst álagið og McLarenmenn náðu 1. og 2. sæti. Glæsilegur árangur hjá liði sem segist a.m.k ekki hafa búist við að standa Ferrari á sporði strax í upphafi keppnistímabils. Hamilton verðskuldar alveg titilinn maður keppninnar eftir að hafa staðist álagið, hitann, svitann og tvo Ferrarimenn.

Verðlaunapallurinn leit eins út og í Ástralíu, tveir McLarenmenn og einn Ferrarimaður, bara tilfæringar á milli sæta.

Langt síðan nýliði hefur komið inn með öðrum eins glæsibrag

Það var gaman að fylgjast með þessum þremur ökumönnum á blaðamannfundinum eftir keppnina, Alonso ábúðarfullur en þó eins léttur á brún og honum er mögulegt í miðjunni, Hamilton eitt stórt bros og svo Kimi hinn alvarlegasti, og eins og fyrri daginn fær enginn spyrill hann til að viðurkenna að hann sé ánægður með neitt annað en sigur.

Það er langt síðan að nýliði hefur komið inn með öðrum eins glæsibrag og þessi strákur, þarf víst að leita allt til ársins 1964 til að finna samsvarandi árangur.

Samkvæmt mínum formúlubókum gæti keppnistímabilið varla hafa byrjað betur, tvö mót búin, tveir sigurvegarar og allt virðist stefna í hörkukeppni milli tveggja sterkra liða ásamt því að BMW Sauber virðist allt eins líkleg til að koma í veg fyrir algjöra einstefnu Ferrari og McLaren. Renaultliðið virtist einnig eitthvað vera að braggast og Williamsliðið átti góða spretti. Aðeins átta stig skilja á milli ökumanna í fyrstu fjórum sætunum eftir þessi tvö mót.

Góðir tímar framundan fyrir formúluáhugamenn

Það eru því góðir tímar framundan fyrir formúluáhugamenn, ekki laust við að maður fari að kíkja á keppnisdagatalið og skoða hvaða keppni væri mögulegt að komast á þó þar standi ein keppni algjörlega efst á óskalistanum – Spa.

Það verður að viðurkennast að það er svolítið skrítið að sjá Kimi í rauðu, engan Michael Schumacher og Alonso í silfruðu. Þetta venst þó allt örugglega þó ég sé ekki eins viss um búningana sjálfa, þá mætti hanna aðeins betur þó mér sýndist að Ferrarimenn hefðu aðeins minnkað auglýsingamiðana á búning sinna manna frá síðustu keppni svo þeir voru þolanlegri núna. Enn á ég líka eftir að henda reiður á hvaða hönnuðir, liðsstjórar, tæknimenn og annað starfsfólk hafa flutt sig milli liða en þetta kemur allt. Allt er þetta hluti af því að fylgjast með Formúlu 1.

Hamilton brosir breitt á pallinum í Sepang.
Hamilton brosir breitt á pallinum í Sepang. ap
Sato (t.v.) og Button bítast í Sepang á tveimur Hondum. …
Sato (t.v.) og Button bítast í Sepang á tveimur Hondum. Hafði Sato betur í þetta sinn. ap
Alonso á leið til sigurs í Sepang, rétt eins og …
Alonso á leið til sigurs í Sepang, rétt eins og hann sé einn í heiminum. ap
Malasískar konur stigu forna dansa við menningarlega athöfn skömmu fyrir …
Malasískar konur stigu forna dansa við menningarlega athöfn skömmu fyrir keppni í Sepang. ap
Áhorfendur í Sepang fengu mikið fyrir sinn snúð.
Áhorfendur í Sepang fengu mikið fyrir sinn snúð. ap
Rimma Hamiltons og Massa á fyrstu hringjunum verður lengi í …
Rimma Hamiltons og Massa á fyrstu hringjunum verður lengi í minnum höfð. ap
Gaman væri að vita hvað fangar athygli Alonso og Räikkönen.
Gaman væri að vita hvað fangar athygli Alonso og Räikkönen. ap
Alonso fagnar í Sepang eins og honum einum er lagið.
Alonso fagnar í Sepang eins og honum einum er lagið. ap
Massa setti svip á keppnina sem fyrr.
Massa setti svip á keppnina sem fyrr. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert