Kimi Räikkönen sýndi að Ferrariliðið verður erfitt viðureignar í næsta móti formúlunnar, er setti besta brautartímann við bílprófanir sem hófust í Barcelona í gær.
Räikkönen var drottnandi á fyrsta degi bílprófanalotunnar en næsti kappakstur, Spánarkappaksturinn, fer fram í Barcelona eftir tæpan hálfan mánuð. Hann setti rúmlega hálfri sekúndu betri tíma en næsti maður, Takuma Sato á Super Aguri.
Sato kom manna mest á óvart með hraða sínum en hann prófaði ýmsar nýjungar í yfirbyggingu bílsins og einnig vélræna hluti. Þar munaði mest um nýjan gírkassa sem Super Aguri áformar að taka í notkun í næsta móti.
Athyglin beindist þó einna mest að McLarenliðinu sem prufukeyrði í fyrsta sinn róttækan framvæng með nýju ofanáliggjandi vængbretti, ofan bíltrjónunnar.
Pedro de la Rosa var undir stýri McLarenbílsins og ók til skipti með nýjan væng eða gamlan til samanburðar á skilvirkni þeirra. Að akstri loknum sagði hann nýja vænginn skila örlítið betri brautartíma og hvert brot telji í keppni.
Nelson Piquet prófaði nýjungar í yfirbyggingu Renault-bílsins sem átt hefur erfitt uppdráttar í fyrstu mótum. Spænski ökuþórinn Adrian Valles ók fyrir Spyker en endi var bundinn á æfingar hans er hann flaug út úr brautinni og skall á öryggisvegg.
Valles var ekki eini ökuþórinn sem klessti, það gerði einnig Kazuki Nakajima hjá Williams. Hvorugur þeirra meiddist þó skellur beggja væri harkalegur og bílarnir skemmdust mjög.
Niðurstaðan varð annars sem hér segir:
Röð | Ökuþór | Bíll | Tími | Hri. |
---|---|---|---|---|
1. | Räikkönen | Ferrari | 1:21.195 | 98 |
2. | Sato | Super Aguri | 1:21.858 | 99 |
3. | de la Rosa | McLaren | 1:21.906 | 101 |
4. | R.Schumacher | Toyota | 1:21.983 | 92 |
5. | Heidfeld | BMW | 1:22.114 | 74 |
6. | Barrichello | Honda | 1:22.665 | 132 |
7. | Piquet | Renault | 1:22.763 | 125 |
8. | Liuzzi | Toro Rosso | 1:22.771 | 56 |
9. | Coulthard | Red Bull | 1:23.165 | 47 |
10. | Valles | Spyker | 1:23.343 | 44 |
11. | van der Garde | Spyker | 1:23.466 | 37 |
12. | Nakajima | Williams | 1:24.248 | 43 |