Lewis Hamilton segist það draumi líkast að vera einn í forystu stigakeppninnar um heimsmeistaratitil ökuþóra í formúlu-1, eftir annað sætið í Spánarkappakstrinum í Barcelona í dag.
Fyrir mótið var Hamilton eini ökuþór sögunnar sem komist hafði á verðlaunapall í fyrstu þremur mótum keppnisferilsins í formúlu-1. Að loknum kappakstri í dag er hann efstur í keppninni um titil ökuþóra með 30 stig en annar er liðsfélagi hans og ríkjandi meistari, Fernando Alonso, með 28 stig.
Lewis Hamilton hefur í öllum mótunum fjórum til þessa haft forystu í kappakstrinum um skeið, auk þess að hafna á palli í þeim öllum.
„Ég segi bara sem fyrr, ég lifi í draumi, það er alveg satt,“ sagði Hamilton eftir kappaksturinn. „Ég hef lagt svo hart að mér til að komast þetta langt, en að vera með forystu í keppninni eftir fjögur mót og toppmennina tvo hér við hlið er ótrúlegt,“ bætti hann við.
Hamilton náði góðri ræsingu sem oft fyrr og tók fram úr Kimi Räikkönen á Ferrari á fyrstu metrunum og síðan fram úr Alonso er hann lenti útaf brautinni eftir samstuð við Felipe Massa í fyrstu beygju.
Hann átti hins vegar aldrei neinn möguleika á að komast í tæri við Massa. Hann telur McLaren þó smám saman vera að draga Ferrari uppi.
Auk forystu Hamiltons í keppni ökuþóra er McLaren efst í stigakeppni bílsmiða með 58 stig gegn 49 stigum Ferrari að loknum fjórum mótum. Þau eru í sérflokki því BMW er þriðja með 23 stig. Þrjú mótin hefur Ferrari unnið en McLaren eitt.