Hamilton stefnir á sigur í Mónakó

Hamilton fagnar í Barcelona en þar tók hann forystu í …
Hamilton fagnar í Barcelona en þar tók hann forystu í stigakeppni ökuþóra. ap

Lewis Hamilton tók forystuna í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra í dag, yngstur allra keppenda í sögu formúlunnar, og sagðist eftir það ætla sér að aka til sigurs í næsta móti, Mónakókappakstrinum.

Hamilton hefur sett mikið mark á formúluna og sett met á met ofan í fjórum fyrstu mótum ferilsins. Átta stig sem hann fékk fyrir annað sætið í Barcelona í dag dugðu honum til að taka forystuna í titilkeppni ökuþóra.

Nýliðin hjá McLaren er 22 ára, fjögurra mánaða og sex daga gamall. Er hann mánuði og tveimur dögum yngri en Bruce McLaren sem áður var yngstur til að leiða keppni um heimsmeistaratitil ökuþóra formúlunnar.

McLaren tók forystu í þeirri keppni árið 1960 eftir sigur á Cooper Climax bíl í argentínska kappakstrinum í Buenos Aires.

Hamilton hefur verið annar á eftir Felipe Massa hjá Ferrari í tveimur síðustu mótum. Næst á dagskrá er Mónakókappaksturinn eftir hálfan mánuð. Þar hefur hann hrósað sigri í keppni á minni og óburðugri bílum en þeim sem hann keppir á nú.

„Það er æðisgengið að vera í forystu í aðeins fjórða móti mínu, það er gott og ég nýt þess. Og ég verð að halda áfram að njóta þess og bæta fleiri stigum í safnið.

Mér hefur alltaf gengið vel í Mónakó og ég sagði við Felipe áðan að sá dagur myndi koma að ég tæki hann. Við vitum aldrei nema það gerist þar. Ég held við verðum mjög öflugir í Mónakó og ég hlakka því til mótsins, tvímælalaust. Ég stefni að sigri þar,“ sagði Hamilton í dag.

Hamilton fagnar öðru sætinu í Barcelona og forystu í stigakeppni …
Hamilton fagnar öðru sætinu í Barcelona og forystu í stigakeppni ökuþóra. ap
Hamilton vonast til að vinna Massa í Mónakó.
Hamilton vonast til að vinna Massa í Mónakó. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka