Christian Horner, liðsstjóri Red Bull, hrósaði David Coulthard í hástert eftir kappaksturinn í Barcelona og sagði hann hafa sýnt „eftirbreytni“ með akstri sínum til fimmta sætis.
Coulthard, aldursforseti ökuþóra formúlu-1, vann með þessu fyrstu stig Red Bull á vertíðinni. Þau vann hann á sömu braut og hann þreytti frumraun sína í formúlu-1, árið 1994.
Skotinn síglaði varð að þreyja þorrann og vona að heilladísirnar sneru ekki við honum baki á lokahringjunum er hann glímdi við vandamál í gírkassa. Fyrir vikið dró Nico Rosberg á Williams mjög á hann á síðustu þremur hringjunum, en Coulthard hélt sjó og sæti.
„David var til fyrirmyndar í dag,“ sagði Horner. „Hraði hans var góður, hann átti góða ræsingu og keppnisáætlun hans var góð. Þrátt fyrir vanda sem skaut okkur öllum skelk í bringu síðustu þrjá hringina, þá dýfði hann hendi í sinn mikla reynslubrunn og fann leið framhjá vandanum. Honum tókst að færa bílinn heim í fimmta sæti og koma okkur á stigatöfluna,“ sagði Horner.
Coulthard hafði ekki lokið keppni í stigasæti frá í ungverska kappakstrinum í Búdapest í fyrrasumar. Hann er ánægður með framfarir liðsins eftir erfiða byrjun á vertíðinni.
„Undir lokin fór þriðji gírinn veg allrar veraldrar og ég hélt ég yrði að hætta. Mér tókst að aka á fjórða gírnum og þar fyrir ofan. Fyrir vikið missti ég ferð á síðasta brautarkaflanum en tókst samt að halda góðri ferð á fyrsta þriðjungi brautarinnar.
Okkur hefur farið meira fram en nokkru liði öðru frá fyrsta móti,“ sagði Coulthard eftir kappaksturinn.