Nýi róttæki framvængur McLarenliðsins, brúarvængurinn svonefndi, er löglegur, að sögn Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA). Nokkrir keppinautar McLaren létu í ljós áhyggjur við FIA að vængurinn svignaði á miklum hraða og væri þannig ólöglegur.
Tæknideild FIA tók vænginn til athugunar og ítarlegrar prófunar í Barcelona en keppinautum McLaren þótti sýnt að myndir úr bílum Fernando Alonso og Lewis Hamilton sýndu fram á að vængurinn sveigðist niður á miklum hraða á beinum brautarköflum.
Niðurstaða tæknideildar FIA var að ekkert væri athugavert við McLarenvænginn. Talsmaður FIA staðfesti það í dag og sagði engra frekari aðgerða þörf.
Framkvæmdastjóri McLaren, Martin Whitmarsh, segir við vefsetrið autosport.com að aldrei hafi leikið nokkur vafi á því innan liðsins að vængurinn stangaðist á við lög. Hann sagði og að myndir úr bílum Alonso og Hamilton sýndu fram á, ef eitthvað væri, að vængurinn væri mjög stöðugur og gæfi í raun ekkert eftir.