Þýska blaðið Die Welt veltir því fyrir sér hvort Kimi Räikkönen þjáist af einhvers konar „Schumi-heilkenni“. Blaðið segir hann eins og „lamaðan“ í hvert skipti sem Michael Schumacher birtist rauðklæddur á keppnisstað.
Og það er ekki einungis að málsmetandi þýskir fjölmiðlar velti þessu fyrir sér, því ítalska íþróttadagblaðið La Gazzetta dello Sport fjallar einnig um undarlega slaka getu Räikkönen í tveimur síðustu mótum. Blaðið spyr sig einnig hvort greina megi „Schumi-heilkenni“ í honum.
Räikkönen átti í erfiðleikum með að vinna sig upp á við í Mónakó í framhaldi af misheppnuðum tímatökum vegna akstursmistaka. Hálfum mánuði áður var hann öflugri en liðsfélagi hans Felipe Massa allt þar til keppnisbíllinn hans bilaði. Massa ók síðan til sigurs í Barcelona.
Schumacher var viðstaddur bæði mót sem starfsmaður Ferrari. Annar fyrrverandi ökuþór liðsins og fyrrverandi heimsmeistari, Alain Prost, hefur hins vegar þá skýringu á gengisleysi Räikkönen að hann sé ekki orðin nógu samofinn liðinu.