Toyota tekur getuleysi Ralfs á sig

Ralf Schumacher á ferð á Toyotunni.
Ralf Schumacher á ferð á Toyotunni. reuters

Forseti Toyotaliðsins, John Howett, hefur stokkið skjólstæðingi sínum Ralf Schumacher eina ferðina enn til varnar. Vefur hann hughreystandi örmum og segir það Toyotaliðinu að kenna hversu illa honum hefur gengið í ár.

Orðrómur um að dagar Ralfs séu senn taldir hjá Toyota vegna erfiðleika sem hann hefur átt við undir stýri TF107-bílsins. Ekki minnkuðu vangavelturnar er tæknistjórinn Pascal Vasselon sagði í fréttatilkynningu í gær, að sá almenni gripvandi sem Ralf hefði átt við að stríða í Mónakó fyrir viku yrði með engum augljósum hætti skrifaður á 2007-bílinn.

Howett kemur ökuþórnum hins vegar til varnar í dag í þýska tímaritinu Kicker og segir að slakt gengi hans sé Toyota að kenna. „Við vorum sannfærðir um að hann myndi færa okkur mótssigur. En við verðum að játa að það hefur ekki enn tekist, ekki vegna Ralfs, heldur vegna bílsins,“ sergir hann.

Howett hrósaði auk þess allri þeirri vinnu sem Ralf Schumacher hefur á sig lagt til að reyna finna lausnir á vanda sínum, svo og fyrir framlag hans í þágu tæknideildar liðsins í bílsmiðjunni í Köln.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert