Hamilton á ráspól í fyrsta sinn

Hamilton leynir ekki gleði sinni með sigurinn í tímatökunum í …
Hamilton leynir ekki gleði sinni með sigurinn í tímatökunum í Montreal. ap

Lewis Hamilton, nýliðinn hjá McLaren, var í þessu að vinna sinn fyrsta ráspól á ferlinum. Hefur hann Kanadakappaksturinn í Montreal á morgun á fremsta rásstað. Í síðustu atrennu í tímatökunni vann hann sig fram úr liðsfélaga sínum og heimsmeistara, Fernando Alonso.

Alonso virtist stefna til sigurs, var tveimur brotum fljótari en Hamilton á næst síðasta hraða hring. Í lokaatlögu sinni bætti Hamilton tíma sinn hins vegar um sex sekúndubrot og Alonso virtist ætla að hrifsa pólinn frá honum, ók hraðar á fyrstu tveimur brautarköflunum af þremur en gerði mistök á þeim síðasta.

Nick Heidfeld jafnaði sinn besta árangur í tímatökum í ár, hefur keppni í þriðja sæti og skaut báðum Ferraribílunum ref fyrir rass. Varð Heidfeld að hafa mjög fyrir sætinu því fyrsti tími hans var strikaður út þar sem hann stytti sér leið í beygju.

Hann bætti heldur betur fyrir það í næstu og síðustu tímatilraun sinni. Er þetta besta rásstaða hans frá í fyrsta móti ársins, í Melbourne, þar sem hann hóf einnig keppni í þriðja sæti.

Ferrariþórarnir voru aldrei með í slagnum um ráspólinn, sú keppni stóð allan tímann milli McLarenþóranna tveggja. Kimi Räikkönen varð fjórði og Felipe Massa fimmti, en þeir voru sjö sekúndubrotum lengur með hringinn en Hamilton, sem er mikill munur í Montreal.

Mark Webber og Nico Rosberg áttu góðan dag, urðu í sjötta og sjöunda sæti, en í því áttunda varð Robert Kubica, Giancarlo Fisichella á Renault varð níundi og Jarno Trulli sýndi mikinn styrk með því að komast í lokalotuna eftir að hafa tapað æfingatíma þar sem fjöðrunarbúnaður í bíl hans brotnaði tvisvar í gær.

Trulli bar af liðsfélaga sínum Ralf Schumacher eins og gull af eiri, sá síðarnefndi féll úr leik í fyrstu lotu og hefur keppni í aðeins 18. sæti. Er þetta í þriðja sinn í sex mótum sem Ralf fellur úr í fyrstu lotu tímatöku.

Helgin hefur sömuleiðis verið ömurleg fyrir Heikki Kovalainen hjá Renault sakir akstursmistaka. Í fyrstu lotu tímatökunnar ók hann of langt inn á beygjubrík svo bíllinn tókst á loft og endaði utan í vegg svo afturvængur brotnaði af.

Aðstoðarmönnum hans tókst á snöggan hátt að skipta um væng og laga það sem bilaði en það dugði Kovalainen þó ekki til að komast áfram í aðra umferð tímatökunnar. Hann hafnaði í 19. sæti en verður að ræsa aftastur vegna mótorskipta eftir að vélin bilaði hjá honum á æfingu í morgun.

Toro Rosso bílarnir komust báðir í fyrsta sinn í aðra umferð í einu og sama móti. David Coulthard átti í miklum vandræðum með bremsurnar og flaug margsinnis út úr brautinni. Komst þrátt fyrir allt í aðra umferð en ekki lengra.

Í fyrstu lotu tímatökunnar féllu úr leik og hefja keppni í 17.-22. sæti, í þessari röð, Anthony Davidsons á Super Aguri, Ralf Schumacher á Toyota, Heikki Kovalainen á Renault, Alexander Wurz á Williams, Adrian Sutil á Spyker og Christijan Albers á Spyker.

Í annarri lotu tímatökunnar komust ekki í lokalotuna og hefja keppni í 11.-16 sæti, í þessari röð, þeir Takuma Sato á Super Aguri, Vitantonio Liuzzi á Toro Rosso, Rubens Barrichello á Honda, David Coulthard á Red Bull, Jenson Button á Honda og Scott Speed á Toro Rosso.

Niðurstaða tímatökunnar varð annars sem hér segir:

Tímatakan í Montreal Lota 1 Lota 2 Lota 3
Röð Ökuþór Lið Röð Tími Hri. Röð Tími Hri. Röð Tími Hri.
1. Hamilton McLaren 3. 1:16.576 3 2. 1:15.486 3 1. 1:15.707 12
2. Alonso McLaren 2. 1:16.562 3 1. 1:15.522 3 2. 1:16.163 12
3. Heidfeld BMW 6. 1:17.006 5 6. 1:15.960 6 3. 1:16.266 12
4. Raikkonen Ferrari 1. 1:16.468 6 5. 1:16.592 3 4. 1:16.411 12
5. Massa Ferrari 4. 1:16.756 4 4. 1:16.138 3 5. 1:16.570 12
6. Webber Red Bull 10. 1:17.315 6 9. 1:16.257 6 6. 1:16.913 11
7. Rosberg Williams 8. 1:17.016 6 10. 1:16.190 6 7. 1:16.919 12
8. Kubica BMW 9. 1:17.267 7 7. 1:16.368 7 8. 1:16.993 12
9. Fisichella Renault 5. 1:16.805 6 3. 1:16.288 6 9. 1:17.229 12
10. Trulli Toyota 11. 1:17.324 8 8. 1:16.600 6 10. 1:17.747 12
11. Sato Super Aguri 14. 1:17.490 6 11. 1:16.743 6      
12. Liuzzi Toro Rosso 16. 1:17.541 6 12. 1:16.760 7      
13. Barrichello Honda 7. 1:17.011 6 13. 1:17.116 6      
14. Coulthard Red Bull 13. 1:17.436 7 14. 1:17.304 8      
15. Button Honda 15. 1:17.522 6 15. 1:17.541 6      
16. Speed Toro Rosso 12. 1:17.433 6 16. 1:17.571 7      
17. Davidson Super Aguri 17. 1:17.542 4            
18. R.Schumacher Toyota 18. 1:17.634 8            
19. Kovalainen Renault 19. 1:17.806 6            
20. Wurz Williams 20. 1:18.089 5            
21. Sutil Spyker 21. 1:18.536 7            
22. Albers Spyker 22. 1:19.196 7            
Hamilton á leið til sigurs í tímatökunum í Montreal.
Hamilton á leið til sigurs í tímatökunum í Montreal. ap
Glaðir feðgar í Montreal.
Glaðir feðgar í Montreal. ap
Alonso og Hamilton unnu fyrsta og annan rásstað í Montreal …
Alonso og Hamilton unnu fyrsta og annan rásstað í Montreal og Heidfeld þann þriðja. ap
Ron Dennis ánægður með sinn mann í Montreal.
Ron Dennis ánægður með sinn mann í Montreal. ap
Hamilton leynir ekki gleði sinni með sigurinn í tímatökunum í …
Hamilton leynir ekki gleði sinni með sigurinn í tímatökunum í Montreal. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert