Lewis Hamilton hjá McLaren hefur ólíkt mörgum keppinauta sinna aldrei ekið í Montreal fyrr en um þessa helgi. Það lét hann ekki þvælast fyrir sér í dag, á lokaæfingunni fyrir tímatökurnar, heldur ók af krafti og setti besta brautartímann.
Vegna slæmra brautarskilyrða og truflana vegna óhappa spöruðu ökumennirnir bíla sína á æfingunni. Kimi Räikkönen á Ferrari ók næsthraðast og heimsmeistarinn Fernando Alonso, liðsfélagi Hamilton, setti þriðja besta tímann.
Talsvert sementsryk var á brautunum eftir hreinsunarstörf í framhaldi af keppni í formúlu Ford. Og rétt áður en æfingin virtist ætla að hefjast fyrir alvöru sprakk mótor í Renaultbíl Heikki Kovalainen er hann var að nálgast lokabeygjuna.
Hvellurinn var það mikill að mikil olía bunaði úr bílnum niður á brautina. Tók tíma að hreinsa hana upp svo hægt væri að hefja leik aftur.
Kovalainen hefur ekki átt góða helgi því hann gat lítið æft í gær vegna áreksturs og vegna vélarbilunarinnar blasir við honum 10 sæta afturfærsla á rásmarki eftir tímatökur.
Takuma Sato á Super Aguri var meðal fremstu manna og Rubens Barrichello gaf til kynna með árangri sínum, að Hondan fari batnandi. Seinni Super Aguri bíllinn varð í tíunda sæti og spurning hvort hin hraða braut í Montreal henti þessum bíl betur en öðrum.
Nick Heidfeld lauk æfingunni með reykjarbólstra aftur úr BMW-inum.
Niðurstaða æfingarinnar varð annars sem hér segir:
Röð | Ökuþór | Bíll | Tími | Bil | Hri. |
---|---|---|---|---|---|
1. | Hamilton | McLaren | 1:16.071 | 12 | |
2. | Räikkönen | Ferrari | 1:16.459 | +0.388 | 14 |
3. | Alonso | McLaren | 1:16.465 | +0.394 | 9 |
4. | Massa | Ferrari | 1:16.666 | +0.595 | 13 |
5. | Sato | Super Aguri | 1:16.864 | +0.793 | 12 |
6. | Rosberg | Williams | 1:16.975 | +0.904 | 14 |
7. | Webber | Red Bull | 1:17.071 | +1.000 | 11 |
8. | Barrichello | Honda | 1:17.329 | +1.258 | 16 |
9. | Coulthard | Red Bull | 1:17.391 | +1.320 | 11 |
10. | Davidson | Super Aguri | 1:17.391 | +1.320 | 15 |
11. | Fisichella | Renault | 1:17.454 | +1.383 | 12 |
12. | Button | Honda | 1:17.468 | +1.397 | 15 |
13. | Kubica | BMW | 1:17.601 | +1.530 | 12 |
14. | Trulli | Toyota | 1:17.624 | +1.553 | 17 |
15. | Speed | Toro Rosso | 1:17.742 | +1.671 | 12 |
16. | R.Schumacher | Toyota | 1:17.748 | +1.677 | 13 |
17. | Liuzzi | Toro Rosso | 1:17.799 | +1.728 | 14 |
18. | Sutil | Spyker | 1:18.270 | +2.199 | 13 |
19. | Heidfeld | BMW | 1:18.428 | +2.357 | 5 |
20. | Wurz | Williams | 1:18.489 | +2.418 | 11 |
21. | Kovalainen | Renault | 1:18.758 | +2.687 | 10 |
22. | Albers | Spyker | 1:18.933 | +2.862 | 13 |