Tilfinningarnar báru McLarenstjórann Ron Dennis yfirliði eftir kappaksturinn í Montreal. Sagðist hann hafa þurft á „kyrrðarstund“ að halda til að meðtaka sigur Lewis Hamilton.
Af þessum sökum tók Dennis ekki þátt í verðlaunaafhendingunni. Sendi hann framkvæmdastjóra liðsins, Martin Whitemarsh, upp á pallinn í staðinn.
Þá barðist Dennis við tárin í samtali við þýsku sjónvarpsstöðina Premiere eftir kappaksturinn.
„Ég er ánægður fyrir hönd alls liðsins, en sérstaklega þó fyrir hönd fjölskyldu Lewis,“ sagði Dennis. Og vék orðum sínum að föður Hamiltons sem fylgt hefur honum og stutt við hvert fótmál sagði Dennis: „Sonur þinn er afar sérstakur.“
Dennis þykir sjaldan sýna tilfinningar né haggast í mótlæti sem meðbyr og því þykir það frétt er hann vatnar músum í gleði sinni.
Dennis var ekki alls kostar ánægður með reglur sem loka þjónustureininni fyrst eftir að öryggisbíll fer út í brautina vegna óhappa. Sagði þær hafa „eyðilagt“ kappaksturinn fyrir Fernando Alonso.