Lewis Hamilton hjá McLaren var í þessu að vinna jómfrúarsigur sinn í formúlu-1 í kanadíska kappakstrinum í Montreal. Annar varð Nick Heidfeld á BMW en fimm sinnum var öryggisbíll kvaddur út í brautina sem hafði veruleg áhrif á röðina að öðru leyti. Þriðji varð Alex Wurz á Williams og fjórði Heikki Kovalainen á Renault en þeir störtuðu aftast allra.
Í allri ringulreiðinni í kappakstrinum var ekkert sem benti til þess að Hamilton væri að keppa í aðeins sínu sjötta móti í formúlu-1 móti. Hann hélt haus hvað sem á gekk og réði ferðinni alveg af ráspól og alla leið í mark.
Hann vann verðskuldaðan sigur við mikinn fögnuð viðstaddra. Og með honum tók Hamilton væna forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra, er með 48 stig gegn 40 stigum Alonso, 33 stigum Felipe Massa og 27 stigum Kimi Räikkönen.
Þá jók McLaren forskot sitt á Ferrari í keppni bílsmiða í 28 stig, 88:60. BMW er í þriðja sæti með 38 stig og Renault í fjórða með 21.
Sömuleiðis ók Heidfeld afar vel og eftir að hann vann sig fram úr Fernando Alonso í fyrstu beygju hélt hann sinni stöðu alla leið. Árangur Wurz og Kovalainen er hins vegar óvæntur og sá langabesti í ár, Wurz vann sig upp um 16 sæti og Kovalainen 18.
Þar er fyrst og fremst um að ræða heppni. Í fyrsta lagi vegna þess hvernig keppnisreglur hljóma og í öðru lagi vegna þáttar öryggisbílsins, sem kom sér vel fyrir þá sem lögðu upp með aðeins eitt bensínstopp.
Í þriðja lagi hjálpaði báðum að Felipe Massa á Ferrari og Giancarlo Fisichella á Renault voru dæmdir úr leik fyrir að aka út úr bílskúrareininni gegn rauðu ljósi. Pallsætið er skemmtilegt fyrir Wurz því hann hóf keppni í formúlu-1 í Montreal 1997, eða fyrir áratug.
Kimi Räikkönen á Ferrari varð fimmti og Alonso sjöundi. Hann átti við mikinn vanda að etja, lenti nokkrum sinnum út úr fyrstu beygju og tapaði við það tíma og sætum, öðru sæti til Heidfeld og síðar þriðja sæti til Massa. Fyrstu mistökin gerði hann strax eftir ræsingu, tók reyndar betur af stað en Hamilton og gerði tilraun til að komast fram úr honum í beygjunni en lenti út úr og inn á grasi.
Sömuleiðis var Alonso refsað fyrir að taka þjónustustopp eftir að merki var gefið um að öryggisbíllinn færi út í brautina. Þurfti hann að aka inn að bílskúr og taka út 10 sekúndna refsistopp. Var í 15. sæti að því loknu en vann sig fljótt upp. Sömu refsingu fékk Nico Rosberg á Williams.
Þá varð Alonso að sætta sig við það á síðustu hringjunum að Takuma Sato á Super Aguri vann hann í hreinum slag um sæti og komst fram úr heimsmeistaranum. Var Sato á harðari dekkjunum, sem reyndust mun betur, en Alonso á þeim mýkri.
Fyrir utan sigur Hamiltons verður kappakstursins minnst fyrir hryllilegan skell Robert Kubica á BMW. Flaug hann inn fyrir brautina við tilraun til framúraksturs á botnhraða skammt frá hárnálarbeygjunni. Bíllinn skall þar harkalega á vegg, mölbrotnaði og kútveltist eftir grasinu, inn á brautina og yfir hana uns hann skall og staðnæmdist á öryggisvegg utan hennar.
Fregnir af líðan Kubica hafa verið litlar og óljósar, en óstaðfestar fregnir benda til að hann hafi sloppið með beinbrot.