McLaren betrumbætir bílinn stórum

Silfurör á ferð í Montreal.
Silfurör á ferð í Montreal. mbl.is/mclarenf1

McLarenliðið hyggst hamra járnið meðan heitt er og undirbyggja forystu sína í heimsmeistarakeppni ökuþóra og bílsmiða með verulega endurbættum keppnisbíl í franska kappakstrinum um næstu mánaðamót.

Með uppfærðum bíl er ætlunin að styrkja stöðu Lewis Hamilton fyrir heimakappakstur sinn í Silverstone í byrjun júlí. Hann er sem stendur með átta stiga forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra.

Og McLaren hefur 28 stiga forystu á Ferrari í heimsmeistarakeppni bílsmiða. Er enska liðið staðráðið í að herða fremur en losa tök sín á þeim titli með sókndjarfri bílþróun.

Árangur McLaren í Montreal og skilvirkni bílanna á hinni hröðu braut kom liðsmönnum þægilega á óvart. Var árangurinn umfram væntingar og því horfir liðið með auknum baráttuþrótti til bandaríska kappakstursins í Indianapolis um komandi helgi. Góð uppskera þar mun leggja grunn að árangursríkum seinni hluta vertíðarinnar.

„Við litum til mótanna í Montreal og Indianapolis sem tveggja sjálfstæðra viðfangsefna og hér hefur okkur tekist vel upp. Gerum við það líka í Indianapolis held ég að við munum bæta enn stöðu okkar í titilslagnum. Við höfum verið hraðskreiðir í margbreytilegum brautum og búumst við að verða öflugir í þeim næstu, sérstaklega í Frakklandi og Silverstone,“ segir framkvæmdastóri liðsins, Martin Whitmarsh.

Hann sagði liðið hafa gert sér vonir um halda enn forystu sinni er mótunum í Norður-Ameríku væri lokið. Því hafi verið ljóst eftir föstudagsæfingarnar í Montreal að möguleikar væru á að auka forystuna, sem orðið hafi raunin.

Whitmarsh sagði, að þrátt fyrir aukna bjartsýni McLarenmanna byggjust þeir allt eins við skjótri endurkomu Ferrari í toppslaginn og eins frekari framförum BMW er opnað gæti titilkeppnina aftur.

„Ferrari er gott lið, þeir munu ekki taka því rólega á næstunni og leyfa okkur að hafa hlutina eins og hentar. Ég vanmet ekki Ferrari, þeir eru með tvo góða ökuþóra og öflugan mannskap. Sé spurt hverja við óttumst mest þá er það ennþá Ferrari en við berum mikla virðingu líka fyrir því sem BMW er að gera,“ sagði Whitmarsh.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert