Fernando Alonso hafði tæpast sagt að veran hjá McLaren væri ekki enn orðin nægilega þægileg er fjölmiðlar fóru að velta vöngum yfir því hvort hann væri á útleið. Ekki leið á löngu er hann hafði verið spyrtur við Ferrari.
Spænska íþróttadagblaðið Marca segir að Alonso hafi ef til vill fundið löglega undankomuleið frá McLaren með því að segjast ekki líða nógu vel þar.
Blaðið staðhæfir að mikil spenna ríki milli Alonso og liðsfélaga hans Lewis Hamilton. Blaðið segir „borgarastyrjöld“ í gangi innan McLaren sem geti tæpast endað með góðu.
„Tvö og hálft ár við þessar aðstæður væri óbærileg refsing. Það vita menn hjá McLaren og líka í öðrum bílskúrum, en þeir hafa þegar knúið dyra hjá Alonso-mönnum,“ segir Marca.
Það segir þrjú lið gætu haft áhuga á heimsmeistaranum en ítalskir fjölmiðlar skýrðu í fyrradag frá áhuga forsvarsmanna Ferrari á að fá hann til sín. „Ljóst er að útilokað er að Fernando uppfylli þriggja ára samning sinn við lið sitt í þessu spennuástandi,“ segir spænska blaðið.
Hamilton er sem stendur með forystu í keppninni um titil ökuþóra, með 48 stig gegn 40 stigum Alonso. „Stríðið“ milli þeirra blossaði upp í Mónakó er Hamilton sagðist harma að vera ekki aðalökuþór McLaren og ýjaði að því að Alonso hafi verið hyglað í liðsákvörðunum.
Spennan óx í Montreal er Alonso sagðist ekki hafa það nógu þægilegt hjá McLaren.
Á morgun munu þeir takast á á kappakstursbrautinni í Indianapolis, er bandaríski kappaksturinn í formúlu-1 fer fram.