Hamilton og Alonso mynda þagnarbandalag

Hamilton (t.v.) og Alonso á heiðurshring fyrir bandaríska kappaksturinn í …
Hamilton (t.v.) og Alonso á heiðurshring fyrir bandaríska kappaksturinn í Indianapolis. reuters

McLarenþórarnir Lewis Hamilton og Fernando Alonso hafa bundist samtökum um að tala ekki hvor um hinn héðan í frá nema báðir séu viðstaddir. Hamilton staðfesti þetta í dag.

Hamilton var spurður hvort hann hefði verið mýldur af hálfu McLarenliðsins sem mun vera áfram um að kveða niður fréttir um vaxandi spennu þeirra Alonso í millum.

Hann svaraði því til, að ákveðinn skilningur ríkti þeirra Alonso í millum. „Okkur semur afar vel. Í ljósi þess að hann er Spánverji reyna spænskir fjölmiðlar vitaskuld að afbaka hlutina og ég held það sama eigi við um breska fjölmiðla.

Við styðjum hvor annan mjög mikið, auðvitað erum við miklir keppnismenn, viljum báðir sigra en við berum mikla virðingu hvor fyrir hinum. Við höfum aldrei rifist. Eftir að ég vann um helgina kom hann til mín og óskaði mér til hamingju.

Okkur finnst nú betra að tala hvor um hinn þegar við erum báðir viðstaddir því hann kynni [annars] að lesa eitthvað í blöðum þar sem einhver hefur snúið út úr því sem ég sagði.

Ég myndi aldrei segja neitt neikvætt um hann því ég ber mikla virðingu fyrir honum og það er engin þörf fyrir það,“ sagði Hamilton.

McLarenstjórinn Ron Dennis sagði í Indianapolis um síðustu helgi, að til aðgerða hefði verið gripið til að takmarka sem mest að ökuþórarnir væru truflaðir.

Breska blaðið The Times lagði það út á þann veg að múll hefði verið settur á Hamilton. „Mýlingar eru byrjaðar,“ sagði blaðið.

Breskir fjölmiðlar hafa sýnt Hamilton gríðarlegan áhuga sakir góðrar frammistöðu nýliðans í keppni í formúlu-1. Þar hefur kastljósinu óspart verið beint að sambandi þeirra Alonso og samskiptum. Hamilton er sem stendur með forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra.

Virtist sem frammistaða Hamiltons og æsingurinn vegna velgengni hans hafi sett Alonso nokkuð úr jafnvægi því hann sagði á dögunum að sér liði ekki nógu vel hjá McLaren. Þótti hann jafnvel gefa til kynna að Hamilton nyti forgangs. Í millitíðinni hefur Alonso lýst því yfir að nú sé hann í fullri sátt gagnvart McLaren og fyndi sig vel í hópnum.

Hamilton á undan og Alonso rétt á eftir í Indianapolis.
Hamilton á undan og Alonso rétt á eftir í Indianapolis. reuters
McLarenþórarnir fagna tveimur efstu sætunum í tímatökunum í Indianapolis.
McLarenþórarnir fagna tveimur efstu sætunum í tímatökunum í Indianapolis. reuters
Ber er hver að baki nema sér bróður eigi.
Ber er hver að baki nema sér bróður eigi. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert