Nigel Stepney, einn af helstu tæknimönnum Ferrari undanfarin áratug, hefur rofið þögnina og skýrt frá hvað málshöfðun liðsins á hendur honum snýst um. Hann segist vera fórnarlamb "sóðabragða" Ferrari.
Stepney var af hálfu fulltrúa Ferrari sagður hafa flúið lögreglurannsókn og innanbúðarrannsókn Ferrari og væri í fríi á ótilgreindum stað í Asíu. Honum er gefið að sök að hafa brotið gegn liðinu og gerst m.a. sekur um tilraun til skemmdarverks.
Enska blaðið Sunday Times hafði upp á honum á Filippseyjum þar sem hann dvelst ásamt unnustu sinni og barni þeirra. "Þetta frí var fyrirfram ákveðið, hvers vegna skyldu menn segja að ekki sé hægt að ná til mín? Ég bókaði ferðina gegnum ferðaskrifstofu Ferrari. Þeir vita hvar ég er," segir Stepney við blaðið í dag.
Að sögn ítölsku fréttastofunnar Ansa fannst grunsamlegt hvítt duft í bensíntanki bíla Felipe Massa og Kimi Räikkönen 21. maí, sex dögum fyrir Mónakókappaksturinn.
Skipt var um tankana og efnið sent lögreglu til rannsóknar. Hún er sögð hafa gert leit í vistarverum Stepney skammt frá Maranello á föstudagskvöld og lagt hald á ýmsa hluti.
Þar á meðal lítinn brúsa sem er talinn geta tengst fregnum um hvíta duftið grunsamlega í tönkum keppnisbílanna.
Stepney, sem er breskur, lýsti opinberlega vonbrigðum með að hafa ekki fengið stöðuhækkun í tæknideild Ferrari er hún var stokkuð upp við brottför tæknistjórans Ross Brawn í fyrrahaust.
Eftir að hafa tjáð óánægju sína í blaðaviðtali var hann settur til hliðar og falið starf í bílsmiðjunni. Einnig var hætt að senda Stepney til móta en hann hafði áður lengi verið í einn æðsti stjórnandi bæði keppnis-og bílprófunarsveitar liðsins.
"Þetta er bara liður í sóðabragða herferð, ég er bjartsýnn á að ég verði hreinsaður í þeim málaferlum sem nú eiga sér stað," segir hann við Sunday Times.
Lögmaður Stepney, Luca Brezigher, segir við ítalska íþróttadagblaðið La Gazzetta dello Sport að til rannsóknar séu m.a. ásakanir á hendur Stepney fyrir skemmdarstarfsemi og sviksemi. Lögmaðurinn segir þær ásakanir ekki hljóma trúverðuglega að fagmaður á borð við Stepney, sem þéni meira en milljón dollara ár ári, skyldi geta unnið eigin liði tjón.
Stepney snýr aftur úr fríinu árla í júlí og gefur lögmaður hans til kynna að hann muni þá boða til blaðamannafundar til að skýra sína hlið málsins.