Ron Dennis hjá McLaren var sáttur við daginn þótt hans menn væru ekki í toppsætunum á æfingum dagsins í Magny-Cours. Hann segir þá hafa svigrúm til að bæta sig en í dag réðu Ferraribílarnir ferðinni.
Þegar upp var staðið settu Lewis Hamilton og Fernando Alonso fjórða og áttunda besta tímann í heildina. Hamilton gat takmarkað ekið á fyrri æfingunni vegna bilunar og Alonso flaug margsinnis út úr brautinni á seinni æfingunni er hann prófaði hvað mikið mætti bjóða bílnum.
„Við munum leggja hart að okkur fyrir morgundaginn að tryggja að við verðum í sem bestu formi í tímatökunum,“ sagði Dennis. Alonso var sama sinnis og spáði því að McLaren myndi eflast eftir því sem liði á helgina.