Räikkönen vann taktíska keppni við Massa

Räikkönen var öflugur í Magny-Cours.
Räikkönen var öflugur í Magny-Cours. reuters

Kimi Räikkönen hjá Ferrari var í þessu að vinna sigur í franska kappakstrinum í Magny-Cours eftir taktíska keppni við liðsfélaga sinn Felipe Massa. Var það fyrsti sigur hans frá í fyrsta móti ársins.

Lewis Hamilton McLaren varð þriðji og jók forystu sína í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. Hann átti aldrei möguleika í ökumenn Ferrari.

Félagi hans Fernando Alonso ók framan af eins og heimsmeistara sæmir og átti frábærar rispur er hann tók djarflega fram úr hverjum keppinautnum af öðrum. Fyrri helming kappakstursins vann hann sig upp í fimmta sæti úr tíunda. Skipti McLaren þá um keppnisáætlun, úr þriggja stoppa í tveggja, en það hafði ekki tilætluð áhrif og kostaði hann líklega eitt sæti eðä tvö.

Räikkönen lét að sér kveða strax í ræsingunni er hann tók fram úr Hamilton. Eftir það var kappaksturinn einleikur Ferrari og athyglin beindist meir að keppni um önnur sæti og stöðuslag. Alonso átti þar einna stærstan hlut að máli.

Voru átök hans við Nick Heidfeld og Giancarlo Fisichella, gamla liðsfélaga hans hjá Renault sérlega upplífgandi. Vann hann sig snilldarlega fram úr báðum eftir mikla þrautsegju.

Tímamót urðu að því leyti að Jenson Button varð áttundi og vann þar með fyrstu keppnisstig Hondaliðsins á árinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert