Óvenjuleg klásúla í samningi nýliðans Lewis Hamilton á eftir að koma sér vel fyrir ökuþórinn unga hjá McLaren. Útlit er fyrir að laun hans margfaldist á árinu klausunnar vegna.
Faðir Hamiltons, Anthony, er umboðsmaður sonarins og að sögn spænska blaðsins Marca á hann nú í viðræðum við stjórnendur McLaren um endurskoðun launakjara hans.
Hamilton er sagður aðeins með um 200.000 punda kaup á jómfrúarárinu, um 25 milljónir króna. Eru það skiptimynt í samanburði við samning liðsfélaga hans, heimsmeistarans Fernando Alonso.
Í samningi Hamiltons segir hins vegar, að taka beri launaliðinn upp sé hann í forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra á miðri vertíð.
Keppnistímabilið verður hálfnað um næstu helgi í Silverstone í Englandi. Nær óþekkt er að nýliði sé í sömu stöðu og Hamilton og því hefur það verið létt verk af hálfu McLaren að samþykkja klausu af þessu tagi - og ótrúleg forsjálni af hálfu Hamiltons eldri að fá klausuna inn, ef hún er á annað borð hugmynd hans.
Anthony Hamilton átti fyrsta formlega samningafund við forsvarsmenn McLaren í Magny-Cours um helgina. Þar lagði hann til að laun hans á seinni helmingi ársins yrðu tífölduð frá því sem hann nú hefur í kaup.