Lewis Hamilton segist sáttur við að komast á verðlaunapall níunda mótið í röð þótt ekki tækist honum aðnýta ráspólinn til að aka til sigurs í sínum fyrsta formúlukappakstri á heimavelli í Silverstone.
McLarenþórinn hafði forystu fram að fyrsta stoppi en hafði ekki í fullu tré við Kimi Räikkönen hjá Ferrari og liðsfélaga sinn Fernando Alonso eftir það.
Dróst hann smám saman aftur úr og varð næstum 40 sekúndum á eftir Räikkönen, sem fór með sigur af hólmi. Þrátt fyrir það er hann með 12 stiga forystu í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra.
„Þetta var áhugaverður kappakstur, ég reyndi að mynda bil á milli okkar Kimi en hann var einkar hraður. Mér urðu á mistök í þjónustustoppinu, ég hikaði ekki heldur fannst mér spjaldinu vera lyft og tók því af stað. Ég veit ekki hvað ég tapaði miklum tíma, einhverjum. Þetta voru mín mistök.
Mig skorti hreinlega hraða í tveimur seinni lotunum. En héðan fer ég með væn stig, níunda pallsætið, sem ég er ánægður með og ég er ánægður með öll stigin sem liðið vann í dag.
Þá verð ég að þakka öllum áhorfendum, þeir hafa verið stórkostlegir alla helgina. Án þeirra stuðnings hefði keppnin orðið mun erfiðari. Vonandi fáum við tækifæri til að sigra á næsta ári,“ sagði Hamilton, en áhorfendur í Silverstone hvöttu hann til dáða og fögnuðu hraustlega er hann vann tímatökurnar í gær.