Starfsmaður ljósritunarstofu kom upp um Coughlan

Ferrari á það starfsmanni ljósritunarstofu að þakka að upp komst …
Ferrari á það starfsmanni ljósritunarstofu að þakka að upp komst um Coughlan. reuters

Það var starfsmaður ljósritunarstofu í Woking í Englandi sem kom upp um að Mike Coughlan, aðalhönnuður McLaren, var með trúnaðargögn Ferrari í fórum sínum. Kom það fram er mál Ferrari á hendur Coughlan var tekið fyrir hjá héraðsdómi í London í dag.

Fyrirtakan var stutt í dag og málinu frestað til morguns. Það höfðar Ferrari á hendur Coughlan og eiginkonu hans Trudy Coughlan, sem er sökuð um að hafa farið með 780 blaðsíður af Ferrarigögnum til ljósritunarstofu í skammt frá Woking til fjölföldunar.

Starfsmaður stofunnar tók eftir því að skjölin voru merkt sem trúnaðarmál og lét hann Ferrari vita af því hvað var á seyði. „Við hefðum aldrei komist að þessu hefði ábending ekki komið frá ljósritunarstofunni,“ sagði lögmaður Ferrari fyrir dómi í dag.

Fóru lögmenn Ferrari fram á það í dag að fá heimild til húsleitar hjá Coughlan svo hægt yrði að rannsaka tölvur hans betur. Málinu var þó frestað til morguns því Coughlan, sem var viðstaddur en tók ekki til máls, hefur óskað eftir því að fá á hreint hvaða forréttinda hann nýtur með vitnisburði sem felur í sér sjálfsásökun um refsivert athæfi og hvernig þau réttindi gagnast vegna málareksturs á Ítalíu á hendur Nigel Stepney, fyrrverandi tæknimanni Ferrari.

Staðfest var við réttarhaldið, að Jonathan Neale, framkvæmdastjóri hjá McLaren, hafði vitneskju um að Coughlan hefði umrædd gögn í fórum sínum. Skýrðist þó ekki hvort Neale var sagt af áður en Ferrari hóf aðgerðir gegn Coughlan eða eftir það. Hefur Ferrari ekki hafið neinar aðgerðir gagnvart honum.

Þá segja lögmenn Ferrari að ekki beri saman dagsetningum sem Coughlan segist hafa sagt frá tilvist gagnanna og dagsetningum frá ljósritunarstofunni.

Lögmenn Ferrari fóru fram á það að liðið fengi nú þegar ákveðinn kostnað vegna úrskurðar um húsleitarheimild fremur en að þurfa að bíða með ákvörðun kostnaðar til loka dómsmálsins.

Því andmæltu lögmenn Coughlans sem sögðu skjólstæðing sinn hafa verið fyllilega samvinnuþýður. Þrátt fyrir að lögmenn Ferrari svöruðu því með því að segja að Coughlans hafi tekið það sem ekki var hans, varðveitt það og hegðað sér með því svívirðilega hafnaði dómarinn því að ákveða Ferrari kostnað með skírskotun til samvinnuþýði hins stefnda. Frestaði hann því þar til á lokastigum málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert