Räikkönen fljótastur í tímatökunni

Räikkönen fagnar öðrum ráspól sínum á árinu.
Räikkönen fagnar öðrum ráspól sínum á árinu. reuters

Finninn Kimi Räikkönen, sem ekur fyrir Ferrari, ók hraðast í tímatökunni í formúlu-1 keppninni í Nürburgring í Þýskalandi í dag. Næstur á eftir honum varð Spánverjinn Fernando Alonso, sem ekur fyrir McLaren og þriðji Felipe Massa á Ferrari.

Rúmlega hálftíma töf varð á því að ljúka mætti tímatökunum vegna harkalegs óhapps Lewis Hamilton hjá McLaren er hálf sjötta mínúta var eftir. Orsök slyssins er rakin til þess að loft lak skyndilega úr hægra framdekki vegna galla við umfelgun.

Fyrir vikið lét bíllinn ekki að stjórn og flaug út úr brautinni í fyrri hluta beygjunnar sem nefnd hefur verið Schumacher S-ið. Þaut hann yfir malagryfju og grófst inn í öryggisvegg við brautarkantinn.

Þegar atvikið átti sér stað hafði Hamilton setta besta tíma dagsins á fyrsta tímatökukafla brautarinnar.

Hann komst fyrir eigin rammleik upp úr bílnum en virtist dasaður og settist niður meðan hann beið hjálpar. Hann var fluttur í sjúkrastöð brautarinnar og flogið síðan með þyrlu á spítala.

Tekið var til við aksturinn að nýju er Hamilton hafði verið fluttur á spítala og gert við öryggisvegginn. Alonso hafði verið með besta tímann í fyrstu tveimur lotunum en sagðist ekki hafa getað einbeitt sér sem skyldi eftir óhapp Hamiltons. Stefndi hann engu að síður til besta brautartíma í lokatilrauninni en gerði slæm mistök við beygju á öðrum tímakaflanum og varð að sætta sig við annað sæti, á eftir Räikkönen.

BMW-bílarnir hefja keppni í fjórða og fimmta sæti, Nick Heidfeld á undan Robert Kubica. Sjötti varð svo Mark Webber á Red Bull og sjöundi Heikki Kovalainen á Renault.

Eftir góða frammistöðu á lokaæfingunni urðu Jarno Trulli og Ralf Schumacher á Toyota að sætta sig við áttunda og níunda sæti. Næst á eftir þeim leggur Hamilton af stað á morgun, fái hann að keppa.

Jenson Button hjá Honda og David Coulthard hjá Red Bull komust ekki áfram úr fyrstu lotu. Hóf sá síðarnefndi lokatilraun sína of seint til að geta hafið hraðan hring áður en flaggið féll. Hefur hann keppni í tuttugasta sæti.

Efstu menn:

  1. Kimi Raikkonen Ferrari 1:31.450
  2. Fernando Alonso McLaren-Mercedes 1:31.741
  3. Felipe Massa Ferrari 1:31.778
  4. Nick Heidfeld BMW Sauber 1:31.840
  5. Robert Kubica BMW Sauber 1:32.123
Kimi Raikkonen sést hér á Ferrari-bifreið sinni.
Kimi Raikkonen sést hér á Ferrari-bifreið sinni. Reuters
Um tíma þykknaði upp fyrir tímatökurnar en síðan létti til …
Um tíma þykknaði upp fyrir tímatökurnar en síðan létti til aftur yfir Nürburgring. reuters
Räikkönen á leið til ráspóls í Nürburgring.
Räikkönen á leið til ráspóls í Nürburgring. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert