Gagnrýna „greiðasemi“ við Hamilton í gryfjunni

McLarembíl Lewis Hamilton lyft úr gryfjunni en í baksýn horfir …
McLarembíl Lewis Hamilton lyft úr gryfjunni en í baksýn horfir Speed á og Jenson Button yfirgefur Honduna sína. reuters

Spænskir fjölmiðlar eru óhressir með að brautarstarfsmenn í Nürburgring skyldu sýna Lewis Hamilton þá „greiðasemi“ að lyfta bíl hans upp úr malargryfjunni við Mercedesstúkuna svo hann gæti haldið áfram keppni.

Spænska blaðið Diario As, sem hvikar ekki frá hollustu við Fernando Alonso sama hvað á gengur, heldur því fram að brautarverðirnir hafi hegðað sér ósæmilega með því að aðstoða Hamilton inn á brautina en ekki aðra fimm ökuþóra sem runnu út úr fyrstu beygju og festust í sömu gryfju og Hamilton.

„Með krana hjálpuðu þeir honum til að halda áfram á sama tíma og aðrir ökuþórar sem í gryfjunni lentu, svo sem Scott Speed, horfðu á í forundran, því kraninn flutti bíla þeirra burt af brautinni en ekki inn á hana aftur,“ segir blaðið.

Alþjóða akstursíþróttasambandið [FIA] staðfesti að það hafi ekki brotið gegn reglum að lyfta Hamilton. Þvert á móti hafi það verið löglegt þar sem bíll hans hafi verið í gangi og hann staðsettur á hættulegum stað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert