Finnski ökuþórinn Mika Salo sem hljóp í skarðið hjá Ferrari þegar Michael Schumacher fótbrotnaði í breska kappakstrinum í Silverstone, segir að í hans huga sé njósnamálið sem kennt sé við hans gamla lið sé ekkert nýtt.
„Þegar ég ók fyrir Ferrari njósnuðum við alltaf um McLaren. Við hleruðum talstöðvarsamskipti þeirra. Eftir hverja einustu æfingu hafði ég fyrir framan mig, útprentað á pappír, allar viðræður Mika Häkkinen við vélfræðing sinn,“ segir Salo við finnska blaðið Ilta-Sanomat í dag.