FIA áfrýjar njósnamálinu

Frá fundi íþróttaráðs FIA í síðustu viku.
Frá fundi íþróttaráðs FIA í síðustu viku. ap

Ferrariliðið fær tækifæri til að skýra sína hlið njósnamálsins svonefnda til fulls þar sem forseti Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA), Max Mosley, hefur haft frumkvæði að því að vísa einróma niðurstöðu íþróttaráðs FIA í síðustu viku til áfrýjunarréttar sambandsins.

Mosley tók þessa ákvörðun eftir bréfaskipti við Luigi Macaluso, forseta ítalska akstursíþróttasambandsins, sem gagnrýndi harðlega þá ákvörðun íþróttaráðs FIA að gera ekki McLaren refsingu í njósnamálinu eftir að liðið var sekt fundið af því að hafa í fórum sínum leynileg gögn sem tilheyrðu Ferrari.

Ferrari var aðeins sem áheyrnaraðili við vitnaleiðslur íþróttaráðsins en fékk þar tækifæri til að svara spurningum og koma að athugasemdum. Sem slíkur aðili að málinu gat Ferrari ekki áfrýjað niðurstöðunni. Í erindi til Mosley heldur Macaluso því fram að niðurstaðan hefði hugsanlega orðið önnur ef Ferrari hefði fengið að tjá afstöðu sína ítarlega.

Höfðaði Macaluso til þeirrar reglna FIA sem gera forsetanum kleift að vísa máli áfram þegar svo stendur á að einn helsti þolandi þess, Ferrari í þessu tilviki, getur ekki áfrýjað.

Á það féllst Mosley og leggur þá kröfu fyrir áfrýjunarréttinn að hann vísi málinu aftur til íþróttaráðsins og leggi á það þá kvöð að það hlýði á hlið Ferrari á málinu auk McLaren, og sérhvers annars liðs sem þess kann að óska, og ákveði í framhaldi af því hvort niðurstaða ráðsins hafi verið viðeigandi, eða hvort breyta verði henni.

Að sögn talsmanns FIA er líklegt að áfrýjunardómstóll FIA komi ekki saman fyrr en í lok ágústmánaðar til að fjalla um niðurstöðu íþróttaráðs FIA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka