Jenson Button minnist þess um helgina í Búdapest að ár er liðið frá því hann vann jómfrúarsigur sinn í formúlu-1 og eina sigur Honda til þessa.
Button hefur þó litla ástæðu til að fagna því Hondan í ár er hvergi samkeppnisfær eins og bíll síðasta árs. Því gæti einungis kraftaverk hjálpað honum til sigurs nú. Hefur hann - og þar með liðið - aðeins unnið eitt stig í fyrstu 10 mótum ársins.
Veðurspár gera ekki ráð fyrir rigningu en úrhelli eftir hádegi á sunnudag gæti þó eflt keppniskraft Buttons.
Í fyrra var Button fremsti ökuþór Bretlands en í ár aðeins í þriðja sæti. Nýliðinn Lewis Hamilton hjá McLaren er í forystu í stigakeppni ökuþóra og David Coulthard, aldursforseti ökuþóra, hjá Red Bull hefur unnið átta stig gegn einu stigi Buttons.
„Það er gott að vera hér aftur, vildi bara óska þess að ég væri með bíl í höndunum sem gæti afrekað eitthvað álíka og í fyrra. Þetta er ekki fyrsta mótið sem árangurinn er svekkjandi, svo það er ekki nýtt fyrir manni,“ sagði Button í Búdapest í dag.
Hann hóf keppni í fyrra í 14. sæti og ók til sigurs í rigningarkappakstri. Sagði allt hafa gengið upp og út úr bílnum hefði tekist að kreista allt sem unnt var.
Button segir að úr þessu einbeiti Honda sér fyrst og fremst að smíði næsta árs bíl sem kemur liðinu í toppslaginn á ný. „Þetta er topplið og við munum vinna okkur út úr vandanum. Það er ástæðulaust að vera neikvæður gagnvart næsta ári, mikið af toppmönum verður þá komið til skjalanna.
„Árið hefur verið erfitt öllum mannskapnum en maður verður að vera jákvæður gagnvart framtíðinni, annars gætum við bara hætt. Ég er 99% viss um að við eigum eftir að keppa um titla í framtíðinni. Næsta ár, eða það næsta, eða þar þar næsta,“ segir Button ári eftir jómfrúarsigur sinn í formúlu-1.